1. Forsíða
  2. Nýtt matstæki frá Menntamálastofnun sem metur læsi og undirstöðuþætti læsis

Nýtt matstæki frá Menntamálastofnun sem metur læsi og undirstöðuþætti læsis

Lesferill er heiti á nýju matstæki sem unnið er af læsisteymi Menntamálastofnunar í samstarfi við aðra sérfræðinga stofnunarinnar. Lesferli er ætlað að meta grunnþætti læsis s.s. lesfimi, lesskilning, ritun, orðaforða og málskilning. Ætlunin er að Lesferill spanni tímabilið frá þriggja til sextán ára aldurs. Hafist var handa við að vinna þessi próf í október 2015 og ætlunin er að prófin verði öll tilbúin til notkunar haustið 2020. Ýmist er um stöðupróf eða skimanir að ræða.
   
Alls eru fimm próf tilbúin til notkunar, þar af eru fjögur sem snúa að umskráningu eða sjálfri lestrartækninni. Hér er um að ræða lesfimipróf, sem má segja að séu grunnprófin. Auk þeirra eru svonefnd hliðarpróf, sem meta þætti sem allir tengjast eða hafa áhrif á lestrartæknina. Hliðarprófin eru próf í sjónrænum orðaforða, próf í orðleysulestri og nefnuhraðapróf. Þessi próf eru öll stöðupróf þar sem staða nemandans er metin miðað við jafnaldra á landsvísu. Prófin taka mið af aðalnámskrá grunnskóla og fylgja þeim áherslum sem þar eru lagðar. Þau eru aðgengileg og til afnota fyrir alla grunnskóla þeim að kostnaðarlausu. Prófin er hægt að nota í heild sinni eða eingöngu hluta þeirra og þá hugsanlega ásamt öðrum prófum sem kennarar kjósa að leggja fyrir.
 
Mælt er með því að prófin séu lögð fyrir á eftirfarandi hátt:
  • Lesfimiprófin fyrir alla nemendur reglulega í 1.-10. bekk (í september – janúar – maí).
  • Hliðarprófin eftir þörfum til að skoða nánar hvernig lestrarfærni nemandans er háttað, hvar styrkleikar og hugsanlegir veikleikar liggja.
  • Gagnlegt er að
    • leggja nefnuhraðaprófið fyrir alla nemendur í 1. bekk (t.d. í október eða janúar).
    • leggja próf í sjónrænum orðaforða fyrir alla nemendur í 1.-3. bekk (í september – janúar – maí).
    • leggja orðleysuprófið fyrir alla nemendur a.m.k. einu sinni á ári í 1.-3. bekk.

 
Aðgengi að prófunum er rafrænt; þau eru vistuð í Skólagátt og geta kennarar nálgast þau þar til útprentunar. Skráning og úrvinnsla niðurstaðna fer einnig fram í gegnum Skólagátt.
Hægt er að nálgast niðurstöður prófanna rafrænt strax eftir að fyrirlögn og innslætti er lokið. Hvorki prófin né niðurstöður þeirra eru opinber gögn og verða niðurstöður þeirra ekki birtar opinberlega. Lesferilsprófin eru valfrjáls möguleiki til að efla skólastarf og eru fyrst og fremst hugsuð sem verkfæri fyrir viðkomandi skóla og kennara til að bæta kennslu og koma til móts við ólíkar þarfir nemenda.
 
Öll prófin eru stöðluð fyrir þrjú fyrirlagnartímabil á skólaárinu: september, janúar og maí, að undanskildu prófinu Lesferill – Lesskimun fyrir 1. bekk (áður Leið til læsis – Lesskimun fyrir 1. bekk) en það próf er opið til fyrirlagnar í október. Einnig er mikilvægt að nefna að lesfimipróf fyrir 1. bekk er ekki staðlað fyrir september, þar sem það er eingöngu hugsað til fyrirlagnar að hausti fyrir börn sem komin eru í gang með lestur. Athugið að ekki er hægt að leggja prófin fyrir utan fyrirlagnartíma.
Fjallað er um hvert próf fyrir sig á stuttum vefnámskeiðum sem eru aðgengileg inni í Skólagátt. Þar er einnig hægt að nálgast einfaldan bækling með leiðbeiningum um fyrirlögn prófanna.
 
Nýlega voru birt lesfimiviðmið sem setja skólum markmið um árangur hvers árgangs að vori (í maí). Lesfimiviðmiðin eru markmiðsviðmið. Rétt er að undirstrika að þau viðmið byggja ekki á núverandi stöðu nemenda á landsvísu heldur þeirri frammistöðu sem talin er ásættanleg í hverjum árgangi. Einnig byggja þau á raunhæfum væntingum um hvaða framförum nemendur geta náð með markvissri vinnu.
 
Sem dæmi um hvernig nálgast skuli niðurstöður lesfimiprófanna er miðað við að 90% nemenda í 4. bekk geti lesið 80 orð á mínútu, 50% nemenda geti lesið 120 orð á mínútu og 25% nemenda geti lesið 145 orð á mínútu. Niðurstöður prófanna er einnig hægt að nota til að bera einstaka nemendur saman við jafnaldra sína.
 
Lesfimiviðmiðin miðast við niðurstöður lesfimiprófa Lesferils að vori og gefa þær niðurstöður því besta mynd af því hvort nemandinn hafði náð viðmiðunum.
Mælieiningin orð á mínútu er háð efnistökum og stíl texta. Textar geta verið misþungir jafnvel þótt þeir séu ætlaðir sama aldurshópi. Notkun annarra prófa en lesfimiprófa Lesferils getur því skapað óvissu um túlkun niðurstaðna.
Kennarar eru hvattir til að kynna sér þessi nýju próf, en sem fyrr segir er opið fyrir fyrirlögn flestra þeirra í janúar. Inni í Skólagátt er hægt að nálgast vefnámskeið þar sem fjallað er um fræðilegan bakgrunn prófanna og hvernig þau skulu lögð fyrir. Einnig viljum við benda á myndband með stuttri kynningu á nýju lesfimiprófunum.
 
 

skrifað 20. DES. 2016.