1. Forsíða
  2. Opnað hefur verið fyrir stuðningspróf Lesferils

Opnað hefur verið fyrir stuðningspróf Lesferils

Opnað hefur verið fyrir stuðningsprófin Mat á orðleysulestri og Mat á sjónrænum orðaforða fyrir 1.-10. bekk en markmiðið með þeim er að leita eftir styrk- og veikleikum í undirstöðuþáttum eins og umskráningu og sjálfvirkni orðmyndalestrar sem reynir á í lestrarnáminu.

Í samræmi við niðurstöður raðast nemendur í þrjá hópa: Áhættuhóp, óvissuhóp og hóp utan áhættu. Ágætt er að leggja stuðningsprófin fyrir nemendur í 1. bekk að hausti og síðan aftur í janúar og maí fyrir þá nemendur sem raðast í áhættu- og óvissuhóp. Einnig geta prófin gagnast eldri nemendum sem eiga í erfiðleikum með lestur.

Stöðlun prófanna
Stuðningsprófin verða stöðluð mælitæki og valfrjáls möguleiki en mælst er til að þau séu nýtt  eftir þörfum til að efla skólastarf. Þau eru fyrst og fremst hugsuð sem verkfæri fyrir viðkomandi skóla og kennara til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda í lestri. Niðurstöður prófanna gera skólum kleift að leggja mat á færni nemenda og auðvelda endurskoðun markmiða í kjölfarið.

Taka ber fram að stöðlun prófanna er ekki að fullu lokið og  því gætu niðurstöður einstakra nemenda breyst í kjölfar lokunar prófanna nú í október. Það er mikilvægt fyrir stöðlun prófanna og áreiðanleika að prófin séu notuð sem mest og því biðlum við til ykkar kennara að nota stuðningsprófin núna eins og þið þurfið.

Fyrirlögn prófanna
Alla jafna er fyrirlagnartímabilið septembermánuður en að þessu sinni eru þau opin til og með 12. október. Athugið að ekki er hægt að skrá inn niðurstöður prófanna eftir 12. október 2018.

Að leggja prófin fyrir nemendur
Aðgengi að prófunum er rafrænt, þau eru vistuð í Skólagátt og geta kennarar nálgast þau þar til útprentunar. Skráning og úrvinnsla niðurstaðna fer einnig fram í gegnum Skólagátt.

Upplýsingar um fræðilegan bakgrunn prófanna og leiðbeiningar um fyrirlögn er að finna á mms.is.

Hægt verður að nálgast niðurstöður í Skólagátt strax eftir að fyrirlögn og innslætti er lokið í öllum árgöngum nema 1. bekk, þar birtast eingöngu lesstig en niðurstöður munu birtast eftir að próftímabili lýkur.

skrifað 25. SEP. 2018.