Raðeinkunn ber niðurstöðu prófa nemanda saman við stöðu annarra nemenda (viðmiðið er aðrir nemendur á landinu)
Hæfnieinkunn segir til um hæfni nemanda í fagi miðað við hvað búast má við (viðmiðið er námskráin)
Dæmi til útskýringar:
Segjum svo að Óli sem er í 10. bekk sé 174 cm á hæð og teljist því meðalhár ef farið er eftir töflu sem segir til um hvað telst vera meðalhæð barna við ákveðinn aldur. Taflan skiptist í lágvaxin, meðalhá, og hávaxin börn (hæfnieinkunn).
Sé bekknum hans raðað upp eftir hæð þá er ekki þar með sagt að Óli sé í miðjunni. Hvar hann lendir í hæðarröðinni fer eftir hæð bekkjarfélaga hans. Ef margir hávaxnir nemendur eru í þessum árgangi gæti Óli raðast með þeim neðstu (raðeinkunn).
Það er því ekki fylgni á milli þess hvar Óli raðast á hæðartöflu og hvar hann raðast í hæðarröð bekkjarins.
Eins er það með hæfni- og raðeinkunnir. Nemandi með B gæti raðast neðarlega borið saman við árganginn ef óvenju margir fá B+ eða A. Þannig gæti B nemandi fengið lága raðeinkunn eitt árið en nemandi með sömu einkunn raðast ofarlega árið eftir. Raðeinkunnin segir til um hvar nemandi raðast miðað við tiltekinn árgang. Viðmið næsta árgangs geta verið allt önnur.