1. Forsíða
  2. Rafræn ferilbók formlega tekin í notkun

Rafræn ferilbók formlega tekin í notkun

Rafræn ferilbók var formlega opnuð í dag 26. ágúst af Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra en um er að ræða grundvallarbreytingu á þjónustu við starfsnámsnemendur.

Í rafrænni ferilbók er lýsing á verkþáttum og hæfni sem nemandi þarf að búa yfir við lok starfsnáms. Markmið ferilbókar er að efla gæði vinnustaðanáms með því að mynda vettvang fyrir samskipti nemenda, vinnustaðar og skóla og annarra sem koma að starfsnámi. Í ferilbókinni er haldið utan um upplýsingar um framvindu námsins í ljósi þeirra hæfnikrafna og starfalýsinga sem liggja til grundvallar viðkomandi starfi.

Samhliða innleiðingu rafrænnar ferilbókar hafa starfsgreinaráð unnið að endurskoðun starfalýsinga og hæfnikrafna starfa. Faghópar skipaðir fulltrúum atvinnulífs og skóla hafa unnið að endurskoðun og uppfærslu á inntaki vinnustaðahluta allra námsbrauta í starfsnámi. Menntamálastofnun í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur haft umsjón með ritstýringu og innleiðingu á ferilbók.

Ferilbókin er liður í umfangsmiklum aðgerðum til eflingar starfsnáms. Með nýrri reglugerð um vinnustaðanám sem tók gildi í haust voru gerðar breytingar á umgjörð starfsnáms þar sem meðal annars ábyrgð á því að finna vinnustað fyrir vinnustaðanám og koma á námsamningi er færð til skóla. Jafnframt er gerð sú grundvallarbreyting að lengd vinnustaðanáms tekur mið af því hvenær nemandi hefur náð tilskyldri hæfni. Þannig getur það leitt til þess að nemendur útskrifist úr starfsnámi fyrr en ella.

Við formlega opnun ferilbókar voru undirritaðir tveir þríhliða námssamningar um vinnustaðanám milli nemenda, skóla og vinnustaðar. Þessir fyrstu námssamningar á grunni rafrænnar ferilbókar voru gerðir á milli  Tækniskólans, Rafholts ehf. og tveggja nemenda við Tækniskólann. Með ferilbókinni er lagður grunnur að auknum gæðum í starfsnámi sem mun styðja við aukna aðsókn í starfsnám og eflingu atvinnulífs í landinu.

skrifað 26. áGú. 2021.