1. Forsíða
  2. Ritunarvefurinn, samstarf og valdefling kennara

Ritunarvefurinn, samstarf og valdefling kennara

Í nútímasamfélagi verður áherslan á skapandi vinnubrögð og skapandi hugsun sífellt mikilvægari. Með því að leyfa sér að skapa með tungumálinu eflist einstaklingurinn, bæði hvað varðar eigin sköpunarmátt og færni í íslenskri tungu.

Samstarf læsisverkefnis Menntamálastofnunnar og rithöfunda hefur verið í góðum farvegi undanfarin ár. Einn anginn í þessu samstarfi hefur verið sá að rithöfundar hafa ferðast vítt og breytt um landið með penna og eldmóð fyrir bættu læsi að vopni.  Áhersla og markmið samstarfsins var á skapandi skrif, gildi læsis, mikilvægi lesturs og að hafa áhrif á lestrarvenjur nemenda, áhuga á bókum og bóklestri með það fyrir augum að efla orðaforða landans.  

Gunnar Helgason reið á vaðið á vegum læsisverkefnisins og heimsótti alla grunnskóla á Austurlandi. Þorgrímur Þráinsson fór á Vestfirðina og Norðurland vestra, Bergrún Íris Sævarsdóttur sótti hluta af Vesturlandi heim og einnig Davíð Hörgdal Stefánsson sem gerði sig jafnframt heimakominn í höfuðborginni. Loka afrakstur þessa öfluga sem og mikilvæga samstarfs var svokallaður Ritunarvefur þar sem allir ættu að finna verkefni við hæfi.

Með þá hugsun rithöfundanna að leiðarljósi að allir geti skapað og það sé innbyggt í lykilkerfi manneskjunnar að sjá fyrir sér annað og meira en það sem augað sér hafði þetta samstarf ekki síður áhrif á valdeflingu og starfsþróun kennara en á nemendur. Þátttakendur höfðu orð á því að þeir höfðu öðlast meira öryggi í kennslu og væru nú með á takteinunum leiðir og verkfæri til að ýta undir skapandi skrif. Í samstarfsverkefninu Sögur er enn fremur að finna leiðir til að efla sköpunina, þjálfa íslenskuna, auka áhuga á lestri og stuðla þannig smám saman að bættu læsi.

skrifað 05. DES. 2019.