1. Forsíða
  2. Samræmdum könnunarprófum í 4. og 7. bekk er lokið

Samræmdum könnunarprófum í 4. og 7. bekk er lokið

Samræmdum könnunarprófum í íslensku og stærðfræði í 4. og 7. bekk er lokið. Þetta árið er óvenju stór árgangur í 4. bekk eða um 4.500 nemendur. Í  7. bekk tóku um 4.200 nemendur prófin.

Nemendur sem þreyta prófin koma úr 155 skólum. Dreifist fjöldinn þannig að í kringum 30% skóla eru með 10 eða færri nemendur í próftöku, tæp 60% skóla með 11 til 50 nemendur í próftöku og kringum 10% skóla með fleiri en 50 nemendur í próftöku.

Ánægjulegt er hvað samstarf við skólana gekk vel en tíu manna aðgerðastjórn Menntamálastofnunar var til taks allan prófatímann til að fylgjast með framkvæmdinni og taka við fyrirspurnum frá skólunum. Fá erindi bárust stofnuninni, sem er til marks um að skólarnir hafi undirbúið framkvæmdina vel. Nú verður hafist handa við að vinna úr niðurstöðum prófanna og taka saman skýrslur um þau.

Tilgangur prófanna er að athuga, eftir því sem kostur er, að hvaða marki hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla hafi verið náð, vera leiðbeinandi um áherslur í námi og veita upplýsingar um námsstöðu nemenda. Mikilvægt er að horfa á þetta sem könnunarpróf og afmarkaðan hluta af því fjölbreytta námsmati sem fram fer í skólum landsins.

Menntamálastofnun þakkar nemendum, foreldrum og starfsmönnum skóla kærlega fyrir samstarfið.

skrifað 27. SEP. 2019.