Í vor útskrifast nemendur úr grunnskólum landsins eftir nýju einkunnakerfi þar sem bókstafir lýsa hæfni nemenda. Einnig er í vor í fyrsta sinn gert ráð fyrir að skólar skili samræmdum vitnisburði. Þetta er gert til að samræma þær upplýsingar sem nemendur fá á vitnisburðarskírteini við lok grunnskólans á öllu landinu.
Aðalnámskrá grunnskóla leggur línurnar með hvað á að meta en Menntamálastofnun hefur unnið að þróun og hönnun þessa samræmda vitnisburðarskírteinis, því taka þurfti ýmsar ákvarðanir um útfærslur, í samráði við skólasamfélagið og aðra haghafa. Þannig er nú loksins komið heildstætt og samræmt námsmat við lok grunnskóla og leiðbeiningar um samræmda birtingu vitnisburðarins.
Útfærsla Menntamálastofnunar á vitnisburðarskírteini er aðgengileg öllum á Upplýsingavefur um námsmat.
Skil einkunna
Skírteini á heimasíðu Menntamálastofnunar er fyrst og fremst dæmi um hvað skuli koma fram á vitnisburði. Mentor og Námfús hafa sína eigin útfærslu af skírteininu sem er með sömu matsþætti og virkni og skírteini stofnunarinnar. Þeir skólar sem eru í viðskiptum við þá eiga að skila sínum vitnisburði í gegnum þeirra kerfi.
Nokkrir skólar eru ekki í viðskiptum við þessi fyrirtæki. Þeir nota skírteini Menntamálastofnunar og skila niðurstöðum beint til stofnunarinnar samkvæmt leiðbeiningum sem þeir fá sendar sérstaklega.
Svör við ýmsum spurningum sem hafa borist og almennar leiðbeiningar um vitnisburðinn er að finna á vefnum Upplýsingavefur um námsmat.
Ef frekari spurningar vakna skal senda þær á [email protected]