1. Forsíða
  2. Sumarlestur á almenningsbókasöfnum um allt land

Sumarlestur á almenningsbókasöfnum um allt land

Það er fátt betra en að lesa góða bók í sumarfríinu, sérstaklega á rigningardögum eða í tjaldútilegu á björtum sumarnóttum. Það getur stundum verið krefjandi að halda krökkunum að bókunum og því mikilvægt að geta boðið þeim upp á spennandi viðfangsefni og hvatningu til að lesa alls konar bækur og taka þátt í hvetjandi verkefnum. Borgarbókasafnið og Menntamálastofnun hafa nú tekið höndum saman og bjóða í sumar upp á skemmtilegan leik í kringum sumarlesturinn sem hvetur börn til að kanna ævintýraheima barnabókmenntanna.

Á almenningsbókasöfnum vítt og breitt um landið má nálgast kortið Leitin að ævintýraheimum sem teiknað er af Ara H. G. Yates. Tilvalið er að hengja kortið upp á ísskápinn eða á vegg í barnaherberginu. Í hvert sinn sem börnin skila bók sem þau hafa lesið heima eða á bókasafninu fá þau límmiða til að líma inn á kortið sitt. Hægt er að safna alls átta límmiðum úr ólíkum ævintýraheimum og vinna sér þannig inn verðlaunalímmiðann og verða „Lestrarmeistari sumarsins“!

Ævintýrakort Ara er vandlega unnið og ætlað að vekja áhuga og veita börnum innblástur til að lesa fjölbreyttar bækur í sumar. Það er margt að gerast á myndinni og því tilvalið fyrir forráðamenn að skoða hana með börnunum og eiga samtal um hvers konar bækur þau hafa áhuga á að lesa og gera sér síðan ferð á bókasafnið til að leysa þrautir, fara í leiki og velja bækur til að taka með heim.  

Hugmyndina að verkefninu vann Ari með starfsfólki Borgarbókasafnsins og Menntamálastofnunar og er verkefnið stutt af og unnið í samstarfi við

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, KrakkaRÚV, Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna, Félag fagfólks á skólabókasöfnum, Heimili og skóla og Mennta- og barnamálaráðuneytið.

Sjá upplýsingar um verkefnið á heimasíðum Borgarbókasafnsins og Menntamálastofnunar.

Sjá heimasíðu Ara H. G. Yates.

Nánari upplýsingar veita:

Ingibjörg Ösp Óttarsdóttir, verkefnastjóra barna- og unglingastarfs hjá Borgarbókasafninu
[email protected] | 411 6146

Guðbjörg R. Þórisdóttir, læsisráðgjafi hjá Menntamálastofnun
[email protected] | 514 7500

skrifað 20. JúN. 2023.