1. Forsíða
  2. Þátttaka ungs fólks í starfsnámi á Íslandi einna minnst í Evrópu

Þátttaka ungs fólks í starfsnámi á Íslandi einna minnst í Evrópu

Aðeins 13,5% ungra nýnema á framhaldsskólastigi völdu að leggja stund á starfsnám á síðasta skólaári, samkvæmt nýrri samantekt Menntamálastofnunar. Það var örlítil fjölgun frá árinu áður, en talsvert undir meðaltali síðustu 10 ára. Meðal Evrópulanda er hlutfall ungs fólks í starfsnámi einungis lægra í Litháen og á Írlandi, samkvæmt nýrri skýrslu OECD um menntamál (Education at a Glance 2018).  Að meðaltali stunda tæp 19% ungs fólks í 27 Evrópulöndum starfsnám, en hlutfallið á Íslandi er 10,2%.

Í skýrslu Menntamálastofnunar kemur fram að nemendur í starfsnámi á Íslandi eru að jafnaði talsvert eldri en nemendur í bóknámi. Þannig var fjórði hver nýnemi í starfsnámi yfir tvítugu og meðalaldur við fyrstu brautskráningu var tæp 28 ár. Hvergi í Evrópu er meðalaldur nemenda í starfsnámi hærri við útskrift, samkvæmt tölum úr skýrslu OECD.

Ísland sker sig einnig úr þegar horft er til þátttöku kynjanna í starfsnámi. Hér á landi var hlutfall ungra kvenna (15 – 24 ára) í starfsnámi á framhaldsskólastigi árið 2016 aðeins 16,5%, á móti 32% karla. Samanburður við Evrópulönd sýnir að þetta er næstlægsta hlutfall ungra kvenna í starfsnámi og jafnframt næstmesti kynjamunurinn. Á síðasta skólaári voru karlar í meirihluta í tveimur vinsælustu iðngreinunum á Íslandi, sem eru húsasmíði og rafiðnir, en einungis örfáar konur lögðu stund á þessar greinar. Konur eru hins vegar í miklum meirihluta nemenda í sjúkraliðanámi, listtengdu starfsnámi og á félagsliðabrautum.  

Rétt er að benda á, að samkvæmt bráðabirgðatölum úr innritunarkerfi framhaldsskóla skráðu fleiri 16 ára nýnemar sig í starfsnám á haustönn 2018 en á sama tíma í fyrra. Ekki hefur verið unnið úr þeim gögnum og ekki er til alþjóðlegur samanburður á þeim.

Nánari upplýsingar um aðsókn í starfsnám, aldursdreifingu nemenda og alþjóðlegan samanburð er að finna í samantekt greiningarsviðs Menntamálastofnunar.

skrifað 14. NóV. 2018.