1. Forsíða
  2. Þekktu réttindi þín

Þekktu réttindi þín

Þekktu réttindi þín er aðgengilegt og hnitmiðað námsefni um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem samanstendur af vinnubók fyrir börn, handbók fyrir kennara, bæklingi um Barnasáttmálann og vönduðu veggspjaldi. Námsefnið bíður nemendum í lærdómsferðalag með það að markmiði gera sérhvert barn að sérfræðingum í réttindum sínum. Upphaflega er námsefnið hannað af UNICEF í Hollandi, í samstarfi við sérfræðinga í námsefnisgerð.

Við hönnun námsefnisins var m.a. unnið með börnum, kennurum og sérfræðingum frá UNICEF að því að meta hvers kyns fræðsluefni nýtist best í réttindafræðslu innan grunnskóla. UNICEF á Íslandi staðfærði efnið og gefur það út í samstarfi við Menntamálastofnun, með það fyrir augum að færa börnum og kennurum það að gjöf á afmælisdegi Barnasáttmálans, 20. nóvember næstkomandi. Útgáfan er styrkt af Barnaverndarsjóði - en börn sem þekkja réttindi sín eru líklegri til að leita sér hjálpar ef á þeim er brotið. Auk þess eru þau betur í stakk búin til að hafa áhrif á eigið líf og samfélagið í heild sinni.

Fjöldi rannsókna, meðal annars í Réttindaskólum UNICEF á Íslandi, hafa sýnt að þekking barna á réttindum sínum hér á landi er enn mjög takmörkuð. En slík þekking, meðal barna og fullorðinna, er einn af hornsteinum innleiðingar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Samstarf milli UNICEF á Íslandi og mennta- og menningarmálaráðuneytisins við útgáfu efnisins gefur réttindafræðslu í grunnskólum aukið vægi, og er liður í markvissari réttindafræðslu. Útgáfan styrkir innleiðingu stjórnvalda á m.a. 4. og 42. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Kynning UNICEF á efninu 

skrifað 19. NóV. 2020.