1. Forsíða
  2. Tilnefningar í fagráð eineltismála - framlengdur umsóknarfrestur

Tilnefningar í fagráð eineltismála - framlengdur umsóknarfrestur

Menntamálastofnun auglýsir eftir tilnefningum í fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum - framlengdur umsóknarfrestur til 10. janúar 2018.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur falið Menntamálastofnun að auglýsa eftir aðilum í fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum. Samkvæmt 30. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og 33. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla skipar mennta- og menningarmálaráðherra þrjá aðalmenn og þrjá varamenn í fagráð eineltismála, til þriggja ára í senn.

Hlutverk fagráðs

Hlutverk fagráðsins er tvíþætt: Í fyrsta lagi er fagráðið stuðningsaðili við skólasamfélagið, sem meðal annars getur falist í almennri ráðgjöf, leiðbeiningum eða upplýsingagjöf. Í öðru lagi skal fagráðið leitast við að ná fullnægjandi úrlausn í eineltismálum sem til þess er vísað, sé þess nokkur kostur, og gefa út ráðgefandi álit í máli á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga er ráðinu berast í tilteknu máli. Nánar er kveðið á um starfsemi fagráðs eineltismála í grunnskólum í verklagsreglum um starfsemi þess nr. 465/2016, en fyrir liggur að endurskoða þarf verklagsreglurnar m.t.t. hlutverk ráðsins gagnvart framhaldsskólum.

Hæfnikröfur

Leitað er eftir aðilum sem hafa faglega þekkingu, menntun og reynslu sem nýtist við forvarnir gegn og úrlausn samskiptavanda og eineltis í skólum. Einnig er gerð krafa um góða samskiptahæfni og reynsla og góð kunnátta í stjórnsýslulegri meðferð mála er æskileg. Menntamálastofnun mun velja þrjá aðalmenn og þrjá varamenn úr umsóknum á grundvelli ofangreindra hæfniviðmiða. Gert er ráð fyrir að fagráðið fundi 1-2 í mánuði, en oftar ef þurfa þykir. Starfsmaður Menntamálastofnunar starfar með fagráðinu. Greitt verður fyrir undirbúning og fundarsetu samkvæmt ákvörðun ráðuneytisins.

Við skipan í fagráð skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Umsóknir með upplýsingum um menntun, starfsreynslu og rökstuðningi fyrir hæfni í starfið sendist til Menntamálastofnunar fyrir  lok dags 10. janúar 2018 á [email protected].

Nánari upplýsingar veitir: Erla Ósk Guðjónsdóttir, [email protected]s. 514-7500.

skrifað 20. DES. 2017.