1. Forsíða
  2. Um samræmd könnunarpróf og innritun í framhaldsskóla

Um samræmd könnunarpróf og innritun í framhaldsskóla

Að undanförnu hefur því verið haldið fram á opinberum vettvangi að niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum hafi nú aukið vægi við innritun í framhaldsskóla. Nokkurs misskilnings gætir í þeirri umræðu.

Einungis tveir framhaldsskólar, Verzlunarskóli Íslands og Menntaskólinn í Reykjavík, hafa sett það í inntökureglur sínar að þeir muni líta til einkunna á samræmdum könnunarprófum í þeim tilvikum þar sem erfitt reynist að velja á milli sambærilegra umsókna. Eftir sem áður gildir sú regla við innritun í alla framhaldsskóla að einkunnir sem grunnskóli gefur í kjarnagreinunum íslensku, ensku og stærðfræði liggja til grundvallar inntöku.

Síðastliðinn desember var reglugerð um innritun í framhaldsskóla breytt. Breytingin fólst í því að nú er tiltekið að skólum er heimilt að skoða viðbótargögn en svo segir í reglugerðinni:

Í þeim tilvikum þegar velja þarf úr stórum hópi umsækjanda er framhaldsskóla einnig heimilt að taka mið af viðbótargögnum sem nemandi kýs að senda með umsókn sinni, eins og staðfestar upplýsingar um þátttöku og árangur í félagsstarfi, öðru námi, keppnum af ýmsu tagi, svo sem íþróttum, listum, tungumálum og raungreinum og niðurstöður sam­ræmdra könnunarprófa.

Breytingin hefur ekki áhrif á vægi skólaeinkunna úr grunnskóla. Þær eru enn það sem fyrst og fremst hefur áhrif á það hvort nemendur komast inn eða ekki. Niðurstöður samræmdra könnunarprófa eru einungis hluti af öðrum gögnum sem heimilt er að líta til þegar velja þarf úr stórum hópi nemenda.

Framhaldsskólar bera ábyrgð á innritun og þ.m.t. inntökuskilyrðum sem ávallt eru miðuð við það nám sem nemendur eru að sækja um. Inntökuskilyrði geta verið misjöfn eftir skólum og námsbrautum. Undanfarin ár hafa nokkrir skólar fengið margar umsóknir umfram laus pláss og því hafa þeir þurft að velja úr umsóknum. Það er misjafnt eftir skólum hvernig þeir afgreiða umsóknir þegar mjótt er á milli skólaeinkunna umsækjenda.  Eins og áður segir eru það einungis tveir skólar sem taka mið af einkunnum á samræmdum könnunarprófum og þá í þeim tilvikum þegar gera þarf upp á milli nemenda sem standa jafnt eftir mat á skólaeinkunnum. Samkvæmt athugun Menntamálastofnunar má ætla að þessi staða komi upp hjá 5-15 nemendum á ári í þessum tveimur skólum.

Hafa ber í huga að innritun í framhaldsskóla hefur gengið vel undanfarin ár og hafa 99% nemenda fengið skólavist í öðrum hvorum þeirra skóla sem þeir sóttu um. Öllum umsækjendum yngri en átján ára er tryggð skólavist. 

skrifað 17. MAR. 2017.