Að gefnu tilefni þá birtir Menntamálastofnun hér útskýringar á þýðingarferli PISA verkefnisins.
Hvert þátttökuland ræður þrjá aðila til verksins hverju sinni. Stundum eru sömu þýðendur ár frá ári en það er breytilegt. Þeir sem eru ráðnir eru löggiltir þýðendur, allir kennarar og hafa kennt eða starfa við kennslu í grunnskólum og framhaldsskólum.
Tveir þeirra frumþýða textann úr ensku á íslensku og sá þriðji ber saman íslensku útgáfurnar með hliðsjón af þeirri ensku og semur lokaútgáfu á íslensku út frá því. Þeirri útgáfu er skilað til OECD með athugasemdum, vangaveltum og röksemdum allra þýðenda í ferlinu.
Fjórði aðilinn er ráðinn beint af OECD í yfirlestur og samanburð á endanlegu íslensku útgáfunni við þá upprunalegu á ensku og frönsku og fer yfir athugasemdir frá þýðendum. Sá aðili gerir athugasemdir og sendir til verkefnisstjóra PISA. Þá hefst samræðuferli sem tekur yfirleitt sex til átta vikur. Lokaútgáfa er svo vandlega lesin fyrir endanleg skil.
Allir fjórir aðilar eru íslenskir. Ferlið er sambærilegt í öllum þátttökulöndunum. Stofnunin cApStAn í Belgíu hefur yfirumsjón með þýðingarferlinu og veitir frekari upplýsingar.
Ferlið hefur verið svona frá upphafi og er því lýst nákvæmlega í kafla 5 í riti OECD sem var gefið út með PISA 2012.