1. Forsíða
  2. Upplýsingar um birtingu prófúrlausna

Upplýsingar um birtingu prófúrlausna

Menntamálastofnun hafa borist fyrirspurnir um birtingu prófúrlausna á samræmdum könnunarprófum í 4. og 7. bekk í september. Eins og kunnugt er voru prófin lögð fyrir með rafrænum hætti í nýju prófakerfi nú í haust.

Til þess að verða við óskum um frekari upplýsingar um prófin hefur verið ákveðið að birta svör nemenda við hverju prófatriði ásamt nákvæmri lýsingu á þeirri hæfni sem hvert atriði reynir á. Einnig verða birtar sambærilegar spurningar og voru á prófinu sjálfu sem reyna á sömu hæfni og metin var í prófinu. Með þessu móti má sjá stöðu hvers nemanda með skýrum hætti. Ástæða þess að sjálf prófatriðin eru ekki birt er sú að unnið er að þróun prófanna þannig að á næstu árum verði þau einstaklingsmiðaðri og hægt verður að laga þau að hæfni hvers og eins nemenda. Því þarf að nýta sömu prófspurningar oftar en einu sinni til að sannreyna áreiðanleika þeirra við að meta tiltekna hæfni.
 
Upplýsingar um prófatriðin og prófúrlausnir nemenda verða aðgengilegar fljótlega á Skólagátt, þjónustusvæði skóla hjá Menntamálastofnun. Verður skólastjórum tilkynnt þegar þessi gögn liggja fyrir og geta þá foreldrar snúið sér til síns skóla til að nálgast þær. Er það von Menntamálastofnunar að með þessari lausn sé komið til móts við óskir nemenda, kennara og foreldra um fyllri upplýsingar um prófin jafnframt því sem ákvæði reglugerðar um birtingu prófúrlausna eru virtar.

 

skrifað 21. OKT. 2016.