Hæfnieinkunn

Hæfnieinkunn 10. bekkur

Frá og með vorinu 2016 skal gefa nemendum sem ljúka grunnskóla vitnisburð á öllum námssviðum í samræmi við matsviðmið í aðalnámskrá grunnskóla og nota bókstafi, þ.e. A, B+, B, C+, C og D. Með námskrá sem byggir á hæfniviðmiðum færist áhersla á námsmati yfir á hæfnina sem nemandi býr yfir og eru einkunnir í nýjum námsmatskvarða nefndar hæfnieinkunnir. Þá þýðir einkunnin A að nemandi hafi náð þeirri hæfni sem lýst er í matsviðmiði viðkomandi námsgreinar undir hæfnieinkunninni A. B þýðir að nemandi hafi náð færni sem lýst er sem B, og svo framvegis. 

Haustið 2015 mun aðalnámskrá grunnskóla frá 2013 verða breytt í takt við þetta. Jafnframt mun skólum gert að skila vitnisburði við lok grunnskóla í samræmi við rafrænt skírteini sem Menntamálastofnun vinnur að. Sérstaklega verður fjallað um rafrænt útskriftarskírteini á öðrum stað á þessum upplýsingavef. 

Í grunnskólum er nokkur hópur nemenda sem stundar ekki nám sitt að fullu samkvæmt skilgreindum hæfni- og matsviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla, heldur að hluta eða öllu leyti eftir aðlagaðri námskrá og viðmiðum í samræmi við metnar sérþarfir. Við námsmat og vitnisburð við lok grunnskóla skal taka tillit til þessa á þann hátt að merkja skal vitnisburðinn með stjörnu (*) á rafrænu útskriftarskírteini. Þannig fá nemendur A*, B*, C* eða D* í samræmi við hvernig þeir ná einstaklingsbundnum matsviðmiðum sínum. Hafi nemandi formlega fengið undanþágu frá tilteknum námssviðum vegna sérþarfa þá skal það koma fram á útskriftarskírteininu.

Einnig þarf að koma fram á skírteininu hvort útbúin hafi verið einstaklingsbundin tilfærsluáætlun um nemendur í samræmi við ákvæði reglugerðar um stuðning við nemendur með sérþarfir. Stjörnumerktar einkunnir auk einkunnarinnar D fela í sér að skóli verður að skrá rafrænt í skírteini hvað liggur að baki stjörnumerkta vitnisburðinum, þ.e. lýsingu á matsviðmiðinu. Stjörnumerking veitir nemendum sem um ræðir og forráðamönnum þeirra upplýsingar um stöðu nemandans og getur einnig nýst við innritun í framhaldsskólanám við hæfi.

Lýsing á hæfni nemenda við mörk hæfnieinkunna. Viðmið voru unnin vegna yfirferðar á samræmdum prófum.

Íslenska          Stærðfræði          Enska

Dæmi um prófatriði sem einkenna hæfni nemenda. Viðmið voru unnin vegna yfirferðar á samræmdum prófum.

Íslenska          Stærðfræði          Enska