1. Forsíða
  2. Þjónusta
  3. Íslenski hæfniramminn um menntun
  4. Hvað er íslenski hæfniramminn um menntun?

Hvað er íslenski hæfniramminn um menntun?

Íslenski hæfniramminn um menntun lýsir hæfniviðmiðum sem kröfur eru gerðar við námslok á hverju skólastigi og í atvinnulífinu. Hann endurspeglar menntakerfi landsins og er skipt í 7 þrep en byggir jafnframt á Evrópska hæfnirammanum um menntun sem er 8 þrep og er ætlað að auka gagnsæi milli evrópskra menntakerfa, í þeim tilgangi að einstaklingar fái viðurkennda menntun og starfsréttindi milli landa.

Öll viðurkennd námslok á grunn-,framhalds- og háskólastigi hafa verið sett á þrep auk námskráa í framhaldsfræðslu sem fengið hafa vottun Menntamálastofnunar. Allar nýjar námskrár með skilgreindum námslokum þurfa að fara í gegnum vottunarferli hjá Menntamálastofnun sem staðfestir að námið uppfylli kröfur um skipulag, framsetningu hæfniviðmiða og námsmat. Í vottuninni felst jafnframt að viðkomandi nám hefur verið tengt við hæfniþrep í íslenska hæfnirammanum. Hvert þrep er byggt á skilgreindum og mælanlegum hæfniþáttum – þekkingu, leikni og hæfni.  Fyrir hvert þrep í rammanum hafa verið sett viðmið fyrir hvern hæfniþátt. 

Hver hæfniþáttur er skilgreindur með eftirfarandi hætti í aðalnámskrá framhaldsskóla (hér stytt talsvert):

  • Þekking er safn staðreynda, lögmála, kenninga og aðferða. Hún er bæði fræðileg og hagnýt og er aflað með því að t.d. lesa, hlusta á, ræða eða með upplifun og reynslu.
  • Leikni er bæði vitsmunaleg og verkleg. Hún felur í sér að geta beitt aðferðum, verklagi og rökréttri hugsun. Hennar er aflað með notkun á aðferðum og þjálfun í verklagi.
  • Hæfni felur í sér yfirsýn og getu til að hagnýta þekkingu og leikni. Hún gerir kröfur um ábyrgðartilfinningu, virðingu, víðsýni, sköpunarmátt, siðferðisvitund og skilning.

Kynningarmyndband um íslenska hæfnirammann.

Kynningarmyndband á ensku