Læsisvefurinn

Læsisvefurinn er fyrst og fremst ætlaður þeim sem kenna lestur. Honum er skipt í fimm hluta sem kallast á við matstæki Lesferils. Þessir þættir eru: Forsendur læsis, lesfimi, orðaforði og lesskilningur, ritun og lestrarmenning. Við val á verkefnum á vefinn er í fyrstu horft til þess að fá kennurum í hendur verkfæri til að styrkja almenna lestrarkennslu inni í bekk og til að koma til móts við nemendur með vægan lestrarvanda. Gert er ráð fyrir að Læsisvefurinn verði lifandi og þrátt fyrir að vera fullmótaður hvað varðar skipulag verði aldrei til endanleg mynd af honum. Notendur vefsins eru hvattir til að hafa samband við Menntamálastofnun vegna hugmynda að verkefnum eða annars sem kann að vanta inn á vefinn.