Leiðbeiningar um gerð umsókna

Viðurkenning er veitt á grundvelli umsóknar sem Menntamálastofnun berst frá eiganda eða stjórn skóla. Með umsókn skal leggja fram eftirfarandi gögn eða upplýsingar:

 • Upplýsingar um umsækjendur

  Í formlegri umsókn skal koma fram nafn skóla og ábyrgðarmanns, heimilisföng, dagsetning umsóknar og kennitala umsækjanda sem þarf að vera sjálfseignarstofnun, hlutafélag eða starfa samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi. Viðurkenning er gefin út á nafn og kennitölu viðkomandi skóla og ábyrgðarmanns skólans. Í umsóknarbréfi skal stuttlega lýst helstu áherslum í náminu, sérstöðu eða sérkennum námsins, hvaða markhópi nemenda því er ætlað að þjóna og áætlaðri þörf fyrir það í samfélaginu. Umsókn þarf að vera undirritað af ábyrgðarmanni skólans.

 • Upplýsingar um húsnæði

  Lýsing á aðstöðu, þ.e. húsnæði skólans og búnaði, ásamt vottorðum frá yfirvöldum heilbrigðis- og brunamála, lýsingu á aðgengi fatlaðra og annarri sérhæfðri aðstöðu sem starfsemin kann að krefjast.

 • Upplýsingar um fjárhag

  Fjárhagsáætlun
  Ábyrgðaraðili skal í öllum tilvikum leggja fram fjárhagsáætlun skólans fyrir yfirstandandi rekstrarár, samþykkta af stjórn hans. Fjárhagsáætlunin skal samanstanda af rekstraráætlun sem sýnir fjárhæðir tekna og gjalda og hins vegar áætlað sjóðstreymi á tímabilinu svo hægt sé að meta greiðsluhæfi innan ársins, ásamt breytingu á eignum (fjármunum) og skuldum (fjármögnun).

  Fjárhagsáætlunin skal sett fram og sundurliðuð þannig að einfalt sé að bera hana saman við síðasta ársreikning og árshlutareikning skólans sé einnig kallað eftir honum. Rekstraráætlunin þarf að sýna að lágmarki hvaðan tekjur koma (m.a. skólagjöld, samningar, vaxtatekjur) og hvernig gjöld skiptast (m.a. laun, verktakar, húsnæði, annar rekstur, búnaður, afskriftir).

  Ásamt fjárhagsáætlun yfirstandandi árs þarf ábyrgðaraðili að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir næstu þrjú ár til að upplýsa hvernig áætlað er (eða stefnt er að því) að fjárhagur þróist á komandi árum. Mikilvægt er að slík áætlun endurspegli stefnumörkun stjórnar skólans og hafi verið afgreidd á stjórnarfundi ásamt greinargerð.

  Á hverju ári skal skóli skila inn ársreikningi til Menntamálastofnunar sem áritaður er af löggiltum endurskoðanda án fyrirvara.Á hverju ári skal skóli skila inn ársreikningi til Menntamálastofnunar sem áritaður er af löggiltum endurskoðanda án fyrirvara.

 • Upplýsingar um nám

  Almennur hluti skólanámskrár

  Í almennum hluta skólanámskrár, samanber 22.gr. laga um framhaldsskóla, skal gerð grein fyrir eftirfarandi þáttum í starfsemi skólans:

  1. Stjórnskipan skólans kjörin stjórn (t.d. eigenda) eða skólanefnd, stjórn daglegrar starfsemi, fagstjórn, fjármálastjórn.
  2. Námsframboð, hvaða nám eða námsbrautir eru í boði í skólanum?
  3. Inntökuskilyrði, skulu skilgreind. Bæði þau sem skólinn setur sjálfur s.s. inntökupróf, aldurstakmark, einkunnir o.s.frv. og sem fram koma í lögum og aðalnámskrá t.d. lok grunnskóla eða hæfni sem nemandi verður að hafa náð til þess að byrja áfanga á tilteknum hæfniþrepum.
  4. Skipulag náms, þarf að falla að ákvæðum framhaldsskólalaga um flokkun og þrepaskiptingu náms. Vinnustundir nemenda skulu vera gefnar upp í framhaldsskólaeiningum og vera að minnsta kosti fullt einnar annar heildstætt nám. Ef námið er skipulagt sem hluti af námsbrautum annarra skóla skal tekið fram í inntökuskilyrðum enda væri það hluti af þeim námslokum sem skólinn veitti nemendum. 
  5. Kennsluhættir, lýsing á fyrirkomulagi kennslu og kennsluaðferðum sem beitt er í skólanum.
  6. Námsmat, lýsing á aðferðum við námsmat, einkunnagjöf eða vitnisburð og birtingu niðurstaðna.
  7. Námslok, samkvæmt 12. grein laga um framhaldsskóla er tekið fram að skilyrði fyrir viðurkenningu lúta m.a. að skólanámskrám og námsbrautalýsingum. Það þýðir að viðurkenning er bundin af 23. grein sömu laga um námsbrautalýsingar sem segir að ,,Námsbrautalýsingar skulu byggðar upp í samræmi við ákvæði almenns hluta aðalnámskrár framhaldsskóla og skólanámskrár viðkomandi skóla.“ Þetta þýðir að námslok viðurkenndra einkaskóla þurfa að fara eftir lýsingum sem finna má í viðauka 2 í aðalnámskrá framhaldsskóla.
  8. Námsferill og skráning upplýsinga um nám nemenda. Lýsing á fyrirkomulagi og skráningakerfi námsferils. Hvernig mun skólinn tryggja nemendum aðgang að upplýsingum úr námsferli eftir að námi lýkur?
  9. Ráðgjöf sem nemendum stendur til boða í skólanum eða á vegum hans.
  10. Önnur þjónusta við nemendur, mötuneyti, heilsugæsla og annað sem í boði kann að vera.
  11. Réttindi og skyldur nemenda, ákvæði séu í samræmi við góða stjórnsýsluhætti og með hliðsjón af ákvæðum almenns hluta aðalnámskrár framhaldsskóla um réttindi og skyldur nemenda.
  12. Meðferð ágreiningsmála í skólanum, lýsing á leiðum sem nemendur og starfsmenn hafa til að leita réttar síns telji þeir á sér brotið.
  13. Foreldrasamstarf, ef hluti nemenda skólans er ólögráða. Lýsing á því.
  14. Samstarf við utanaðkomandi aðila ef við á, t.d. þegar starfsþjálfun í fyrirtækjum er hluti af náminu. Lýsing á því.
  15. Sjálfsmat og gæðamál, lýsing á fyrirkomulagi þeirra mála í skólanum í samræmi við 40. og 41. gr. laga um framhaldsskóla.
  16. Annað sem skóli kýs að kveða á um í skólanámskrá.

  Skólanámskrá þarf að berast Menntamálastofnun bæði útprentuð og á rafrænu formi (pdf).

 • Staðfesting námsbrautalýsinga

   

  Viðurkenning einkaskóla nær einungis til þeirra námsbrautalýsinga sem fram koma í umsókn. Námsbrautalýsingar þurfa að vera staðfestar af ráðuneyti eða vera í staðfestingarferli hjá Menntamálastofnun sbr. 23. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92. 2008.

  Staðfestar námsbrautalýsingar

 • Niðurstöður Menntamálastofnunnar

  1. Viðurkenning ekki veitt
  2. Viðurkenning veitt að fullu – 3 ár
  3. Viðurkenning veitt tímabundið, bundin skilyrðum – 1 ár