1. Forsíða
 2. Skólastig
 3. Lýðskólar
 4. Leiðbeiningar um gerð umsókna

Leiðbeiningar um gerð umsókna

Eftirfarandi leiðbeiningar lýsa þeim upplýsingum sem lýðskólar þurfa að veita til að geta hlotið viðurkenningu Menntamálastofnunar skv. ákvæðum laga nr. 65/2019 og reglugerðar nr. 430/2020. Umsækjendur geta haft leiðbeiningarnar til hliðsjónar við gerð umsóknar. Viðurkenning er veitt á grundvelli umsóknar sem Menntamálastofnun berst frá eiganda eða stjórn lýðskóla. Við afgreiðslu umsókna er gengið úr skugga um að starfsemi viðkomandi lýðskóla uppfylli einstaka þætti krafnanna.

Með umsókn skulu fylgja eftirfarandi gögn eða upplýsingar:

 • 1. Upplýsingar um umsækjanda

  Nafn og kennitala umsækjanda sem skal vera að forminu til sjálfseignarstofnun, hlutafélag eða starfa samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi. Viðurkenning er gefin út á nafn og kennitölu umsækjanda.

 • 2. Rekstrarform og eigendur

  Staðfesting á rekstrarformi, upplýsingar um eigendur og staðfesting á að skólinn sé ekki rekinn með fjárhagslegan ágóða að markmiði.

 • 3. Fjárhagsmál

  Umsækjendum ber að fylla út excel skjalið „Yfirlit yfir fjárhag umsækjenda“ og word skjalið „Fjárhagsmálefni-Form og leiðbeiningar“ og láta fylgja umsókn. Finna má tengla í skjölin hér að neðan. Mikilvægt er að vanda til verka við útfyllingu þeirra.

  Að auki þurfa ársreikningar síðustu þriggja ára, rauntölur líðandi árs og rökstudd fjárhagsáætlun til næstu þriggja ára að fylgja umsókn. Gæta þarf þess að tölur í áætlunum séu samanburðarhæfar við tölur í ársreikningum.

  ​Út frá framangreindum gögnum er metið hvernig fjárhagslegri ábyrgð er háttað, hvernig fræðsluaðili fjármagnar starfsemi sína og hvernig fjárhagslegt rekstraröryggi starfseminnar er tryggt. Heimilt er að krefjast bankatryggingar af fræðsluaðila.

  Tengill í excel skjal
  Tengill í word skjal

  Þegar skóli sem er að hefja starfsemi sækir um viðurkenningu þarf að sundurliða áætlanir um reksturinn sérstaklega vel. Þar sem fyrsta viðurkenning gildir jafnan í eitt ár þarf fjárhagsáætlun aðeins að ná yfir líðandi ár og næsta ár þar á eftir. Í stað ársreikninga eru send inn stofnskjöl, s.s. samþykktir, skipulagsskrá o.þ.h., auk staðfestingar á greiðslu stofnframlags/hlutafjár og skuldbindinga eigenda gagnvart umsækjanda. Fylla þarf fyrrgreind excel og word skjöl út að því marki sem mögulegt er.

 • 4. Aðstaða

  Með umsókn þurfa að fylgja vottorð frá yfirvöldum heilbrigðis- og brunamála, lýsing á aðgengi fatlaðra og lýsing á aðstöðu, s.s. heimavist, öðru húsnæði skólans og búnaði.

  Varðandi vottun heilbrigðisyfirvalda skal leggja fram starfsleyfi og nýjustu niðurstöðu reglubundins eftirlits heilbrigðiseftirlits. Varðandi vottun slökkviliðs þarf að leggja fram jákvæða umsögn slökkviliðs um eldvarnir. Þetta á við um heimavist og allt það húsnæði sem umsækjandi notar til reglubundinnar kennslustarfsemi.
   
  Gæta þarf þess að umsögn slökkviliðs sé innan við 6 mánaða gömul. Bent er á að það getur tekið talsvert langan tíma að uppfylla kröfur slökkviliðs og þarf því að sækja um umsögn slökkviliðs í tíma. 
  Eigandi og eða forráðamaður húsnæðisins þarf að sjá til þess að húsnæði uppfylli kröfur í samræmi við reglugerð 723/2017 um eldvarnir og eldvarnaeftirlit.

 • 5. Stjórn, starfshættir, skipurit

  Upplýsingar um stjórn, starfshætti og skipurit.

 • 6. Kröfur til menntunar og reynslu

  Gögn um hvernig skólastjóri uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til menntunar og reynslu.

 • 7. Eftirspurn og ákvæði um inntak náms

  Þarfagreining á mikilvægi og mögulegri eftirspurn eftir námi skólans og lýsing á því hvernig ákvæðum um inntak náms er fullnægt.

 • 8. Skólanámskrá

  Skólanámskrá sem tekur til allra þátta skólastarfsins. Í henni skal m.a. gerð grein fyrir starfsemi skólans, helstu áherslum, stefnumörkun, stjórnskipan, námsframboði og skipulagi náms og kennslu. Þá skal þar tekið fram hvernig stuðningi, ráðgjöf og þjónustu við nemendur er háttað, þ.m.t. nemendur með sértæka námsörðugleika, og hver réttindi og skyldur nemenda eru. Skólareglur skulu einnig birtar í skólanámskrá. Í skólanámskrá á einnig að geta um samstarf innan sem utan skóla, sjálfsmatskerfi skólans og gæðaeftirlit ásamt öðru því sem skóli kýs að setja fram.

 • 9. Sjálfsmat

  Lýsing á innra matskerfi og framkvæmd sjálfsmats.

 • 10. Skjalastjórnun og nemendabókhald

  Lýsing á skjalastjórnun og nemendabókhaldi ásamt því hvernig umsækjandi mun tryggja nemendum aðgang að upplýsingum um námsferil eftir að námi lýkur.

 • 11. Stefna gegn ofbeldi

  Stefna skólans gegn ofbeldi ásamt viðbragðsáætlun.

 • 12. Ferli ábendinga

  Lýsing á ferli þar sem nemendur geta komið sjónarmiðum sínum og ábendingum á framfæri.

Þá er Menntamálastofnun heimilt að óska eftir frekari gögnum telji stofnunin þau nauðsynleg til að sinna hlutverki sínu.

Umsóknum og fylgigögnum skal skilað rafrænt á [email protected]