1. Forsíða
  2. Námsefni
  3. Aðalnámsskrá vefur

Aðalnámsskrá vefur

Opna vöru

Aðalnámskrá er hryggjarstykkið í öllu skólastarfi. Þar koma fram fyrirmæli stjórnvalda um skólastefnu, að hverju skólaganga barna og ungmenna eigi að stefna og hvaða þekkingu, leikni og hæfni stjórnvöld telja mikilvæg til framtíðar. Aðalnámskrá er í senn leiðarvísir um nám og kennslu sem allt skólastarf þarf að taka mið af og yfirlýsing stjórnvalda um gæðastarf í skólum.

Til þess að aðalnámskrá geti þjónað tilgangi sínum þarf hún að vera aðgengileg þeim sem starfa samkvæmt henni. Með þessum vef er ætlað að gera aðalnámskrá grunnskóla aðgengilegri en verið hefur og einnig að skapa umgjörð um fjölbreytt efni sem styður við framkvæmd hennar. Á síðunni mun með tímanum verða margskonar efni sem fyrirhugað er að vinna í tengslum við að efla skilning á námskránni, hugtökum sem þar koma fram og tengslum námskrár við framkvæmd náms og kennslu í skólum.

Almennur hluti aðalnámskrár leggur grunn að hlutverki skóla, fagmennsku kennara og sýn á almenna menntun. Þar koma meðal annars fram stefnumótandi áhersluþættir svo sem grunnþættir menntunar, megináherslur í námi og kennslu, inntaki og skipulagi náms, tilhögun námsmats og mats á skólastarfi. Almenni hluti aðalnámskrár setur fram þá sýn og stefnu sem allt skólastarf á að mótast af.

Greinasviðin setja fram nánari umfjöllun um þá hæfni sem stefnt er að með skólastarfinu innan ákveðins námssviðs eða námsgreinar. Lykilhæfni setur fram hæfni sem ætlað er að stuðla að alhliða þroska nemenda og tengist öllum námssviðum. Greinasviðin og lykilhæfnin eru sett fram á samræmdan hátt.

Vefsvæðinu er meðal annars ætlað að dýpka umfjöllun um aðalnámskránna, vinna með kennslufræði námsgreina og margt það sem fram hefur komið að skorti í tengslum við stuðning um framkvæmd náms og kennslu. Rafræn framsetning býður upp á markvissara aðgengi að efni námskrárinnar. Lykilhugtök aðalnámskrár eru nú undirstrikuð í texta og birtist skilgreining á hugtökunum þegar farið er með músabendil yfir orðið. Skilgreiningar hugtakanna eru byggðar á aðalnámskránni ásamt Íðorðabanka Árnastofnunar.