Sumarið 2004 voru vélstjórarnir Ágúst Borgþórsson og Unnar Sveinlaugsson frá Seyðisfirði á ferð um Vestdalsheiði. Þá fundu þeir nælur í urð við læk ekki langt frá Vestdalsvatni. Í framhaldi af því var staðurinn rannsakaður og fundust þá líkamsleifar konu sem taldar eru vera frá tíundu öld. Hjá henni mátti finna 600 perlur og fimm stóra og heillega skartgripi. Í myndinni er fjallað um þennan merka fund og rannsóknir fornleifafræðinga á svæðinu. Hildur Gestsdóttir og Guðný Zoëga skoða beinin og segja frá gripunum sem fundust.
Fundurinn reyndist einstakur. Aldrei áður hafa leifar svo skartklæddrar konu frá víkingaöld fundist á víðavangi. Hver var þessi kona? Hvert var hún að fara og af hverju var hún ein á ferð á fjöllum? Reynt er að svara þessum spurningum í myndinni. Þá er fundurinn settur í samhengi við sambærilegan fund í Noregi.
Fræðslumyndir Menntamálastofnunar eru aðeins til niðurhlaðs fyrir grunnskóla. Nauðsynlegt er að IP – tölur skóla séu skráðar hjá stofnuninni.