Menntamálastofnun hefur umsjón með ytra mati á leik- grunn- og framhaldsskólum fyrir hönd mennta- og barnamálaráðuneytis. Í ytra mati felst að matsaðilar Menntamálastofnunar leggja mat á starfsemi viðkomandi skóla með hliðsjón af gildandi viðmiðum sem meðal annars byggja á lögum, reglugerðum og aðalnámskrám. Er það gert með skoðun á fyrirliggjandi gögnum um starfsemi skólans, vettvangsheimsóknum matsaðila og viðtölum við börn/nemendur, starfsfólk skóla og foreldra.
Fjöldi skóla sem metnir eru árlega og aðferðir við val á skólum til mats eru ekki eins á öllum skólastigum. Sex leikskólar eru metnir ár hvert. Sveitarstjórn sækir um að fá ytra mat á leikskóla með því að svara árlegri auglýsingu frá Menntamálastofnun. Grunnskólarnir tíu sem metnir eru árlega eru valdir af sérstakri verkefnisstjórn fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga en ytra mat á grunnskólum hefur verið samstarfsverkefni þeirra frá 2012. Fimm framhaldsskólar eru að jafnaði metnir árlega. Bundið er í lögum að meta eigi framhaldsskóla á fimm ára fresti og ákveður mennta- og menningarmálaráðuneyti röðun þeirra.
Leitast er við að gera matið eins gagnsætt og unnt er með því að hafa aðgengilegar fjölbreyttar upplýsingar. Hér er hægt að nálgast upplýsingar sem sendar eru skólum og foreldrum um ytra mat, lýsingu á framkvæmdinni, svo og matstæki með þeim viðmiðum sem notuð eru við matið. Einnig siðareglur matsmanna. Loks eru allar skýrslur um ytra mat á skólum opinberar og aðgengilegar hér.
Við tökum fagnandi á móti öllum ábendingum um ytra mat og þau matsgögn sem hér eru birt. Ytra mat, viðmið og framkvæmd er alltaf í endurskoðun með það að markmiði að styðja og styrkja skólastarf á Íslandi.