1. Forsíða
  2. Nemendasamsetning í hefðbundnum framhaldsskólum

Nemendasamsetning í hefðbundnum framhaldsskólum

Hér getur að líta tölur um nemendasamsetningu í hefðbundnum íslenskum framhaldsskólum á undanförnum önnum. Tölurnar miðast við listann Nemendur í námi sem sóttur er í Innu, skólakerfi framhaldsskólanna, 1. október að hausti og 1. mars að vori. Stuðst er við ISCED flokkun sem er sambærileg þeirri sem Hagstofa Íslands notar við flokkun gagna um íslenskt skólakerfi. Gögnin eru gjarnan skoðuð út frá þeim námsleiðum sem nemendur velja sér og er þá skipt í almennt bóknám, starfsnám, undirbúningsnám og starfsbrautir. Einnig eru gögnin skoðuð út frá kyni, aldri, einingafjölda og landshluta skóla.

Ráðgert er að uppfæra greininguna á hverri önn svo hægt verði að fylgjast með þróun á nemendasamsetningu framhaldsskólanna.

 

Skilgreiningar:
Hefðbundnir framhaldsskólar teljast þeir sem starfa samkvæmt framhaldsskólalögum nr. 92/2008 og bjóða upp á fjölbreytt heildstætt nám samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Þeir eru þeir 30 talsins. Aðrir viðurkenndir framhaldsskólar sem ekki falla undir þessa skilgreiningu eru Fisktækniskóli Íslands, Hallormsstaðaskóli, Menntaskólinn Ásbrú, Kvikmyndaskóli Íslands, Ljósmyndaskólinn, Menntaskóli í tónlist og Myndlistaskóli Reykjavíkur. Nemendur þessara sjö skóla eru ekki í þeirri greiningu sem hér er gerð.

Almennt bóknám er nám á framhaldsskólastigi sem miðar að fræðilegu háskólastigi. Hér er fyrst og fremst um stúdentsbrautir að ræða og fjarnám sem skráð er á tilteknar námsbrautir. 
Starfsnám er ýmist skilgreint sem nám á framhaldsskólastigi sem leiðir til starfa á vinnumarkaði eða nám sem byggir ofan á nám á framhaldsskólastigi og leiðir til starfa á vinnumarkaði.
Undirbúningsnám samanstendur fyrst og fremst af framhaldsskólabrautum og almennum brautum. Fjarnám sem ekki er skráð á tilteknar námsbrautir flokkast einnig sem undirbúningsnám.
Starfsbrautir eru námsbrautir fyrir fatlaða nemendur.

Þar sem gögn eru greind eftir landshlutum er miðað við heimilisfang skóla en ekki lögheimili nemenda.

Uppruni gagna:
Þær niðurstöður sem hér eru settar fram byggja á úrvinnslu listans Nemendur í námi sem sóttur er í Innu, skólakerfi framhaldsskólanna, á dagsetningunum 1. október og 1. mars á hverri önn. Listinn gefur yfirlit yfir nemendur sem skráðir eru í framhaldsskóla á tilteknum tímapunkti. Þar er m.a. að finna upplýsingar um námsleiðir, kyn, aldur og einingafjölda nemenda. 

Aðeins var haldið inni þeim framhaldsskólum sem bjóða upp á fjölbreytt heildstætt nám samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla, samtals 30 skólum. Þeir eru nefndir hefðbundnir framhaldsskólar. Tvíteknar kennitölur voru fjarlægðar úr listanum auk nemenda án eininga og nemenda sem skráðir voru á námskeið sem falla utan framhaldsskólans. Hið sama á við um nemendur 14 ára og yngri og þá sem augljóslega voru enn í grunnskóla þótt þeir væru skráðir í nokkrar framhaldsskólaeiningar.

Hafa ber í huga að nokkrir nemendur eru skráðir á námsbrautir sem enn hafa ekki verið flokkaðar í námsleiðir. Einnig ber við að kyn nemenda sé ekki skráð. Þetta leiðir til þess að samtölum ber ekki fullkomlega saman í öllum tilvikum þar sem viðkomandi nemendur eru ekki alltaf hafðir með í útreikningum, s.s. þar sem birtar eru tölur yfir námsleiðir og kynjaskiptingu. Þar sem um lítinn hóp er að ræða hefur þetta hverfandi áhrif á niðurstöður.