4.1 Hverjir þreyta prófin?
Almenna reglan er að allir nemendur í 9. bekk skulu þreyta prófin. Nemendur sem fylgja ekki sínum jafnöldrum skulu þreyta samræmd könnunarpróf þegar þeir eru í 9. bekk.
4.2 Undirbúningur á prófstað
Skólastjóri skipuleggur og ber ábyrgð á framkvæmd samræmdra könnunarprófa í sínum skóla. Hann, eða aðili sem hann skipar, sér til þess að stofur séu undirbúnar, röðun nemenda í stofur sé fyrirfram ákveðin, að tölvur séu tiltækar, prófkóðar nemenda prentaðir út og að nemendur hafi verið upplýstir um skipulag á prófdögum.
4.3 Prófstofur
Áður en prófdagur rennur upp þarf að undibúa tölvur sem notaðar eru og setja vafra með Veflás inn á allar tölvur.
Í tölvustofum er oft vandi að hafa nægilega langt á milli nemenda. Til að bregðast við því er röðun svarmöguleika í prófunum ekki sú sama hjá öllum heldur raðast þeir af handahófi. Það flýtir fyrir því að nemendur komist í sæti að ákveða uppröðun nemenda fyrirfram svo þeir geti gengið að ákveðnu sæti/borði þegar þeir koma inn í stofu. Jafnframt auðveldar það dreifingu prófkóða ef nemendur raðast t.d. út frá stafrófsröð.
4.4 Veikindi nemenda í prófi
Ef nemandi verður veikur í prófi og hættir próftöku án þess að ljúka prófi skal tilkynna það til Menntamálastofnunar. Það er gert til að nemendi fái ekki einkunn fyrir prófið.
4.5 Mæting nemenda í próf
Skólastjóri ákveður hvenær nemendur eiga að mæta í skólann á prófdegi. Almenna reglan er sú að nemendur séu komnir í sæti og tilbúnir að hefja vinnu á þeim tíma sem próf á að hefjast. Það er háð aðstæðum í hverjum skóla og fjölda nemenda hvenær nemendur þurfa að vera mættir á prófstað til að próf megi hefjast á tilsettum tíma. Skólastjóri heldur utan um yfirlit yfir mætingu í próf í sínum skóla.
4.6 Nemandi mætir of seint
Nemanda sem mætir of seint í próf er heimilt að þreyta prófið svo fremi að hann mæti innan við 30 mínútum frá þeim tíma sem skólastjóri ákveður að próf hefjist. Óheimilt er að láta aðra nemendur bíða þó að einn nemandi sé of seinn.
4.7 Tvær lotur á prófdegi
Hægt er að skipta árgangi í tvennt og hafa tvær próflotur sama dag. Á þetta einkum við um stærri skóla þar sem fjöldi nemenda er meiri en fjöldi tækja.
Prófkóðar sem útbúnir verða fyrir nemendur gilda í hvaða próflotu sem er þannig að stjórnendur hafi svigrúm til að raða nemendum á próflotur og skipuleggja framkvæmd prófsins.
4.8 Svindl
Verði vart við svindl í prófi skal samstundis tilkynna það til Menntamálastofnunar. Í tilkynningunni skal koma fram lýsing á atviki og upplýsingar um nemanda/nemendur. Rétt er að nemandi ljúki prófi en sönnunargögnum skal haldið til haga. Menntamálastofnun áskilur sér rétt til að ógilda niðurstöður prófa þeirra nemenda sem sannanlega hafa notað óleyfileg hjálpargögn eða fengið óleyfilega aðstoð.
4.9 Óvæntar uppákomur
Ef spurningar vakna á prófdegi um hvort víkja þurfi frá reglum um fyrirlögn prófanna skal ávallt hafa samband við Menntamálastofnun og fá samþykki. Sama á við ef upp koma óvænt tilvik við fyrirlögn prófanna sem bregðast þarf við. Í öllum tilvikum á að tilkynna Menntamálastofnun strax um þessi tilvik.
4.10 Fámennar stofur
Ef æskilegt er að nemandi þreyti próf í fámennri stofu, hvort sem er vegna þess að hann truflist auðveldlega eða ef hætt er við að hann trufli aðra, er skólastjóra heimilt að haga skipulagi þannig að slíkt reynist unnt. Ekki þarf að sækja um leyfi fyrir því til Menntamálastofnunar.
4.11 Truflun á prófstað
Farsímar eru bannaðir meðan á prófi stendur. Hafi nemendur farsíma með sér er nauðsynlegt að slökkt sé á þeim og þeim komið í vörslu þess sem situr yfir. Það er stranglega bannað að taka myndir af prófatriðum á skjá.
Nemendum er óheimilt að hlusta á tónlist í samræmdum könnunarprófum. Slíkt getur truflað nemandann sjálfan og nemendur á næstu borðum.
4.12 Nemendur sem fá að þreyta próf í öðrum skóla
Ef nemandi þarf af einhverjum orsökum að taka próf í öðrum skóla en sínum heimaskóla, þarf skólastjóri nemandans að hafa samband við gestaskólann til að tryggja að réttur prófkóði fylgi nemandanum. Stjórnendur heimaskóla og gestaskóla hafa samráð um að nemandi fái að þreyta próf í gestaskóla. Oft á tíðum á fjölskylda nemandans einnig hlut að máli þar sem gestaskóli er valinn vegna þess að fjölskyldan dvelur í skólahverfinu.
4.13 Hjálpargögn í prófi
Nemendur mega mæta með eigin vasareikna í próf eða nýta vasareikni sem skólinn útvegar þeim. Þess skal þó gætt að símar séu ekki nýttir í þeim tilgangi. Nota má forritanlega vasareikna með því skilyrði að þeir séu endurræstir bæði fyrir og eftir próf.