Nú er samræmdum könnunarprófum lokið og byrjað að vinna úr niðurstöðum þeirra. Eiga stjórnendur, kennarar og aðrir starfsmenn grunnskóla hrós skilið fyrir sitt mikilvæga framlag við fyrirlögn prófanna.
Samkvæmt lögum sér Menntamálastofnun um að leggja fyrir samræmd könnunarpróf, sjá nánari upplýsingar um tilgang prófanna. Samning, fyrirlögn og úrvinnsla prófanna er ekki einfalt ferli og mikilvægt að vanda vinnu við prófaferlið.
Í kjölfar samræmdu könnunarprófanna í 9. og 10. bekk síðastliðið vor voru skipulagðir samráðsfundir með helstu hagsmunaaðilum um samræmd próf (skólastjórar, kennarar, foreldrasamtök og fleiri) þar sem rýnt var í framkvæmd prófanna. Komu þar m.a. fram ábendingar um auka þyrfti samstarf og upplýsingagjöf um fyrirlögn prófa, þróun þeirra og fleiri þætti.
Menntamálastofnun hefur við undirbúning prófanna leitast við að bregðast við þessum ábendingum. Í aðdraganda prófanna nú í haust voru haldnir tólf opnir fjarfundir fyrir skóla og samráðsfundir. Aukið hefur verið við upplýsingar á vefsíðu, sendir upplýsandi tölvupóstar og Facebook-síða nýtt til að koma skilaboðum til skóla. Starfsfólki í þjónustveri hefur verið fjölgað, hugað betur að tæknimálum og aðgengi að sérfræðingum bætt. Er það von stofnunarinnar að þetta hafi skilað sér í betri þjónusta við skóla.
Þakkar Menntamálastofnun öllum kærlega fyrir samstarfið í kringum samræmd könnunarpróf.
Óskum nemendum til hamingju með að hafa lokið prófum og góðs gengis í skólanum í vetur.