1. Forsíða
  2. Lestur er svo sannarlega lykill að ævintýrum

Lestur er svo sannarlega lykill að ævintýrum

"Lestur er svo sannarlega lykill að ævintýrum. Lestur er lykill að ótal herbergjum sem geyma svo ótal margt. Í einu má örva ímyndunaraflið, í öðru er allskyns upplýsingaforði. Við þurfum að opna dyrnar að þessum vistarverum með börnunum okkar, leiða þau inn í nýja heima, hjálpa þeim fyrsta kastið en treysta þeim svo til að rata sjálf“. Þetta voru upphafsorð GuðnaTh. Jóhannessonar, forseta  Íslands en hann setti ráðstefnuna Lestur er lykill að ævintýrum sem var haldin laugardaginn 18.nóvember. Í ræðu sinni fór hann yfir læsi í ljósi sögunnar og kom inn á að lestrarkennsla á Íslandi hafi oft verið nokkuð harðneskjuleg en að nú séu breyttir tíma.

Einn aðalfyrirlesara ráðstefnunnar var Joshi R. Malatesha, doktor í lestrar- og móðurmálskennslu við Texas A&M University. Talaði hann um mat á lestri og snemmtæka íhlutun. Hann fjallaði um þróun læsis og mikilvægi þess að grípa strax inn í ef nemendur eiga í erfiðleikum með að læra stafina og hljóð þeirra. Kunnátta nemenda á stöfum og hljóðum við lok fyrsta bekkjar er ein besta forspá um gengi nemenda í lestrarnámi.

Þá fór Rannveig Oddsdóttir, sérfræðingur við Miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri, yfir þróunarvinnu skóla á Eyjafjarðarsvæðinu við gerð nýrrar læsisstefnu Læsi er lykillinn sem er ætlað að vera leiðandi stefna leik- og grunnskóla á svæðinu.

Að lokum kynnti Jenný Gunnbjörnsdóttir þróunar- og rannsóknarverkefnið Hugleikur – samræður til náms sem unnið var í samstarfi HA, MSHA og leik-, grunn- og framhaldsskóla á Akureyri. Samræðuaðferðir fela m.a. í sér að spyrja spurninga og efla gagnrýna hugsun.

Auk þess var fjöldi af málstofum um ýmsa þætti tengda læsi, svo sem fjölbreyttar kennsluaðferðir, foreldrasamstarf, mat á skólastarfi, lestrarvenjur unglinga, ritunarkennslu, orðaforða.

Um 180 manns sóttu ráðstefnuna sem var haldin í samvinnu Menntamálastofnunar og Háskóla Íslands og ríkti almenn ánægja með daginn.

 

 

skrifað 22. NóV. 2017.