Opinber rammi kennslumála

Lagarammi

Engin ein lög ná yfir allt nám á Íslandi og því byggir Íslenski hæfniramminn á lögum um grunnskóla, lögum um framhaldsskólalögum um framhaldsfræðslu  og lögum um háskóla. Helstu hagsmunaaðila í menntun gáfu út sameiginlega yfirlýsingu um íslenska hæfnirammann árið 2016 en þar er að finna lýsingu á hæfniviðmiðum.  Þessir hagsmunaaðilar hafa sömuleiðis sammælst um að halda áfram þróun hæfnirammans og styrkja stoðir hans og markvissa innleiðingu enn frekar.

Viðurkenning fræðsluaðila

Allar menntastofnanir þurfa viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðherra sem er þó heimilt að fela Menntamálastofnun þetta hlutverk. Miklar kröfur eru gerðar til þeirra áður en slík viðurkenning er veitt t.d. hvað varðar húsnæði, gæði kennslu, innra og ytra eftirlit og fleira. Heimilt er að stifta menntastofnun viðurkenningunni standist hún ekki lengur þessar kröfur.

Allar námsleiðir með skilgreind námslok sem boðið er upp á þurfa að fara í gegnum einhvers konar vottunarferli sem tengt er eftirliti með gæðum menntunarinnar.

Samkvæmt lögum fer fram bæði innra og ytra gæðayfirlit á öllum skólastigum til þess að tryggja gæði þeirrar menntunar sem boðið er upp á. Gæðakerfin eru hins vegar mismunandi eftir skólastigum:

  • Í háskólum fer nefnd utanaðkomandi erlendra sérfræðinga yfir gæði alls náms á 5 ára fresti. Háskólarnir sjá síðan sjálfir um vottun eigin náms og þeim er heimilt að bjóða upp á námsleiðir innan þeirra sviða sem þeir hafa leyfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að bjóða upp á.
  • Í framhaldsskólum sjá innlendir óháðir aðilar um ytra gæðamat en skólarnir sjálfir um innra gæðamat. Framhaldsskólarnir búa til námsbrautarlýsingar og fá þær staðfestar af mennta- og menningarmálaráðherra. Þrjár megintegundir námsloka eru skilgreindar, það er framhaldsskólapróf, próf til starfsréttinda og stúdentspróf. Þá bjóða margir framhaldsskólar upp á sérstakar starfsbrautir fyrir fatlað fólk. Önnur lokapróf og viðbótarnám við framhaldsskóla eru safnheiti yfir ýmis námslok sem ekki falla undir fyrrnefndar tegundir námsloka. Sum námslok geta verið skilgreind á mismunandi hæfniþrepum, önnur ekki.
  • Í framhaldsfræðslunni sækja fræðsluaðilar um viðurkenningu fyrir til þess að annast framhaldsfræðslu en í slíkri viðurkenningu felst staðfestingu á því að starfsemi fræðsluaðila uppfylli almenn skilyrði laga um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 og reglna sem settar eru með stoð í þeim. Meðal þeirra atriða sem metin eru sérstaklega eru aðstaða til kennslu og námskeiðahalds, skipulag náms og umsjón með því, námskrár, hæfni með tilliti til þekkingar og reynslu, fjárhagsmálefni, tryggingar og gæðakerfi með áherslu á nám fullorðinna. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur innleitt Evrópska gæðamerkið (EQM) en EQM er gæðavottun fræðsluaðila utan hins formlega skólakerfis í Evrópu. EQM gæðavottun tekur m.a. til innihalds náms, hvernig hæfniviðmið eru skilgreind og kynnt fyrir námsmönnum, ferli fyrir greiningu á þörfum námsmanna, hvernig árangur náms samkvæmt hæfniviðmiðum er metinn og hvernig fræðsluaðili tryggir að mælikvaðar séu uppfylltir og að farið sé eftir viðmiðum um gæði í námi. Öllum fræðsluaðilum, fyrirtækjum og starfsgreinafélögum sem bjóða upp á fullorðins fræðslu er heimilt að nýta EQM verkfærin til sjálfsmats og eflingu gæða en hægt er að óska eftir EQM vottun. Framhaldsfræðsluaðilar búa til námskrár en Menntamálastofnun hefur umsjón með vottun námskráa. Með vottun námskráa er m.a. tryggð gæði og gegnsæi náms og það staðfest að námið uppfylli kröfur sem gerðar eru með tilliti til inntaks náms. Með umsókn um vottun námskrár fylgir nákvæm lýsing á hæfniviðmiðum og námsþættir staðsettir á þrep.