1. Forsíða
  2. 4. Stuðningsúrræði og undanþágur

4. Stuðningsúrræði og undanþágur

4.1 Stuðningsúrræði

Samkvæmt reglugerð nr. 173/2017 um fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa í grunnskólum er heimilt að leyfa nemendum að nýta sér stuðningsúrræði. Beiðni skal fylla út með vitund og vilja nemenda og forráðamanna þeirra. Lestrarstuðning og lengdan próftíma skal skrá í Skólagátt. Sé óskað eftir sértækari stuðningsúrræðum skal senda tölvupóst til stofnunarinnar á póstfangið [email protected]

4.2 Stuðningsúrræði sem ekki þarf að sækja um sérstaklega

Ekki þarf að sækja um sérstaklega ef skólastjóri raðar nemendum í smærri hópa en ella og dreifir á nokkra staði til að auðvelda fyrirlögn.

Ekki þarf að sækja sérstaklega um að nemendur með annað móðurmál en íslensku nýti sér orðalista í stærðfræði án frekari túlkunarþjónustu. Skólastjóri getur ákveðið að heimila túlkun fyrirmæla sé orðalisti ófullnægjandi. 

Ekki þarf að sækja sérstaklega um stækkað letur. Nemandi getur stillt það í prófkerfinu sjálfur. 

4.3 Stuðningsúrræði sem sækja þarf um

Nemendur sem þess þurfa, geta fengið að taka próf með lestrarstuðningi og lengdum próftíma. Í lestrarstuðningi felst að hljóðskrá með upplestri er við alla texta og spurningar. Lengdur próftími er 15 mínútur. Eins og fram kemur hér að ofan þarf að skrá slíkar beiðnir í Skólagátt.

4.4 Sértæk úrræði

Ofantalin úrræði í liðum 3.2 og 3.3 eru almenn úrræði sem nýtast nemendum með margvíslegar þarfir. Önnur úrræði nýtast einungis nemendum með tilteknar þarfir og eru jafnframt sjaldgæf. Þau úrræði þarf að sækja um sérstaklega hjá Menntamálastofnun. 

4.5 Eyðublöð vegna stuðningsúrræða og undanþága

Ákvörðun um stuðningsúrræði fyrir nemendur eða undanþágu frá samræmdum könnunarprófum er tekin í samvinnu nemanda, foreldra og skóla. Eyðublöð til að taka saman upplýsingar sem tengjast þessari ákvörðun er að finna hér að neðan. Niðurstöður skal færa inn í Skólagátt en eyðublöðin skal varðveita í skólanum. Á þeim geta verið viðkvæmar persónuupplýsingar og ber því að varðveita þau með tryggum hætti í skólanum. 

4.6 Undanþágur

Samkvæmt lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, er skólastjórum heimilt, ef gildar ástæður mæla með því og samþykki foreldra liggur fyrir, að veita nemendum undanþágu frá því að þreyta samræmd könnunarpróf. Skólastjórar tilkynna Menntamálastofnun um undanþágur með sama hætti og þegar skráð eru stuðningsúrræði í nemendaskráningunni í Skólagátt.

Undanþágur er hægt að veita nemendum:

1. Með annað móðurmál en íslensku.

2. Í sérskólum, sérdeildum og þeim sem taldir eru víkja svo frá almennum þroska að þeim henti ekki samræmd könnunarpróf.

3. Sem orðið hafa fyrir líkamlegu eða andlegu áfalli sem gerir þeim ókleift að þreyta samræmd könnunarpróf.

Undanþágur eru ákveðnar af skólastjóra í samráði við foreldra nemandans. Skólastjórar hafa tilkynningarskyldu við mennta- og menningarmálaráðuneytið að þessu leyti og hefur fallið í hlut Menntamálastofnunar að taka við tilkynningum um nemendur sem fá undanþágu. Þegar undanþágur eru tilkynntar er merkt við það ákvæði undanþágureglna sem við á hverju sinni.

Eyðublað fyrir umsókn um stuðningsúrræði 

Eyðublað fyrir umsókn um undanþágu 

Frestur til að skrá inn beiðnir um undanþágur og stuðningsúrræði er til 12. september vegna samræmdra könnunarprófa í september 2018.

<<Fyrri kafli

Næsti kafli>>

Efnisyfirlit