Gott er að segja sögur eða lesa fyrir börn frá unga aldri. Fjölbreytt lesefni eykur orðaforða og vekur áhuga barna.
15 mínútur á dag geta gert gæfumuninn til að viðhalda lestrarfærni.
Stundum skortir viljann eða lestrarhvötina. Til að örva áhuga á lestri er nauðsynlegt að gefa börnum kost á að velja lesefni út frá áhugasviði.
Hér fyrir neðan má finna hugmyndir sem þú getur nýtt með barninu þínu á hverjum degi, annan hvern dag eða bara eins og hentar ykkur.
Dagur 1: Lesið bækur sem vekja tilfinningar. Lesið bók sem fá ykkur til að hlæja, undrast eða finna til kærleika.
Dagur 2: Er til bók um áhugamálið? Heimsækið bókasafnið. Hvaða áhugamál á barnið þitt? Er til bók um áhugamálið? Mundu að börn geta fengið bókasafnsskírteini endurgjaldslaust.
Dagur 3: Fjall eða fjara. Lesið bók um fjöll eða fjöru. Það er spennandi að fara í fjallgöngu eða fjöruferð. Er eitthvað úr bókinni að finna á fjallinu eða í fjörunni?
Dagur 4: Lesið bók í útilegunni. Eru þið að fara í útilegu? Lesið í tjaldinu, á grasinu, í sandinum eða uppi á kletti.
Dagur 5: Hlustið saman á hljóðbók. Ef barnið ræður ekki sjálft við texta er tilvalið að lesa fyrir það og fá hljóðbækur að láni. Þannig kynnist barn sem á erfitt með lestur þeim orðaforða og þeirri þekkingu sem læsir jafnaldrar fást við.
Dagur 6: Lestur undir teppi. Sýndu barninu þínu hvernig það getur lesið með vasaljós undir teppi eða í svefnpoka.
Dagur 7: Barnið velur skáldsögu. Leyfðu barninu þínu að velja skáldsögu til að lesa. Líklegra er að barn lesi ef það hefur eitthvað skemmtilegt að lesa.
Hér má nálgast Sumarlæsisdagatal Menntamálastofnunar á íslensku, ensku og pólsku.