Það er skemmtilegt að lesa á sumrin
Rannsóknir sýna að sumarfrí nemenda getur haft í för með sér ákveðna afturför í námi því fyrri þekking og færni gleymist sé henni ekki haldið við. Þetta eru svokölluð sumaráhrif.
Hvað lestrarfærni varðar getur þessi afturför numið einum til þremur mánuðum á hverju sumri og hjá barni í 6. bekk, sem aldrei hefur lesið yfir sumartímann, getur uppsöfnuð afturför numið einu og hálfu skólaári. Yngstu lesendurnir, nemendur í 1.-4. bekk, eru sérstaklega viðkvæmir fyrir sumaráhrifum en börn sem glíma við lestrarerfiðleika, búa við litla lestrarmenningu heima fyrir eða eiga annað móðurmál en íslensku, eru einnig í áhættuhópi.
Hið jákvæða er að það þarf ekki mikið til að krakkar viðhaldi færni sinni eða taki framförum. Rannsóknir sýna að til þess að koma í veg fyrir afturför nægir að lesa að jafnaði tvisvar til þrisvar í viku í um það bil 15 mínútur í senn.
Best er þó að lesa í 15 mínútur á degi hverjum og velja þá hæfilega krefjandi lesefni á áhugasviði viðkomandi.
Sumarlæsisdagatal Menntamálastofnunar er góður stuðningur sem gott er að grípa til, en það inniheldur 31 skemmtilega leið að lestri.
Dagatölin hafa einnig verið gefin út á ensku og pólsku.
Dagatölin eru öll til án texta þannig að hægt er að fylla inn í þau með eigin hugmyndum.
Foreldrar eru bestu lestrarfyrirmyndir barna sinna svo við hvetjum til þess að öll fjölskyldan lesi saman. Hér má finna fróðleik sem gagnast foreldrum við læsisuppeldi:
- Lestur er bestur í sumarfríinu
- Sumaráhrifin og lestur
- Vefsvæðið Lesum meira
- Læsissáttmái Heimilis og skóla - Fræðsla til foreldra
Gleðilegt lestrarsumar