Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur 16. september ár hvert en dagurinn varð fyrir valinu þar sem hann er fæðingardagur Ómars Ragnarssonar.
Á þeim degi er tilvalið að veita náttúrunni og náttúruvernd sérstaka athygli og bendum við því á námsefnið Náttúran til framtíðar sem er hugsað fyrir unglingastig. Þar er fjallað um ýmisleg umhverfisvandamál og hvað hægt er að gera til að finna lausnir á þeim. Hreint haf – Plast á norðurslóðum er námsefni ætlað nemendum á yngsta stigi og miðstigi en þar er hafið skoðað á heildstæðan hátt. Lesið í skóginn er verkefnabanki með þverfaglegum verkefnum þar sem ýmis greinarsvið eru fléttuð saman fyrir alla aldurshópa. Verkefnin miða að því að tengja nemendur við skóginn og sjá notagildi hans og fegurð í margvíslegri vinnu með og í skógi. Námsefnið hentar öllum stigum grunnskólans.