Árið 2019 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025.
Í áætluninni er talað um að það þurfi að uppræta kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreiti með samstilltu átaki, byggðu á djúpstæðum skilningi á ofbeldinu. Útgáfa þessarar kennarahandbókar er liður í því að tryggja þekkingu skólastarfsfólks á forvörnum, fræðslu og viðbrögðum.
Kynbundið ofbeldi er því sannarlega viðfangsefni skólakerfisins. Til mikils er að vinna með að ná snemma til ungra brotaþola og styðja í átt að betri líðan. Enn frekari ávinningur felst þó í því að ná til gerenda og mögulegra framtíðargerenda snemma og reyna að stýra þeim frá því að beita ofbeldi, en eingöngu þannig verður kynferðisofbeldi upprætt.