Hljóðbók með bókinni Tækni og framfarir sem er þemaheftir í sögu fyrir miðstig og unglingastig.
Bókin er hluti af bókaflokknum Sögugáttin. Í henni er rakin saga tækniþróunar á Vesturlöndum á 20. öld, öld mikilla umbreytinga þar sem framfarir urðu á ótrúlega skömmum tíma. Fjallað er um byltingarkenndar breytingar í samgöngum, uppfinningar sem tengjast styrjöldum aldarinnar, upphaf geimferða og hið langvarandi kalda stríð. Lesendur kynnast einnig uppfinningu gerviefna, rafvæðingu heimila, stórstígum framförum í læknisfræði og tilkomu heimilistækja sem breyttu daglegu lífi fólks. Í lok bókarinnar er vikið að byltingu í samskiptum og nýrri tækniþróun samtímans – þróun sem enn er í mótun og enginn veit hvernig mun enda.
Með bókinni fylgja fjölbreytt verkefni sem hvetja til frekari heimildavinnu og gagnrýninnar hugsunar, sem gerir Tækni og framfarir sérstaklega vel til þess fallna í kennslu og sjálfstætt nám.
