Með tilkomu Lesferils hafa skapast forsendur til að meta árangur af lestrarkennslu, fá samanburðarhæfar upplýsingar um stöðu nemenda og vísbendingar um veikleika í lestrarferli þeirra. Séu niðurstöður notaðar á markvissan hátt geta þær lagt grunninn að árangursríkri lestrarkennslu sem skilar öllum nemendum nauðsynlegri og góðri lestrarfærni. Sameiginleg rýni skólastjórnenda og kennara í niðurstöður leiðir til mikilvægs samtals um gæði lestrarkennslu og getur átt þátt í að efla og bæta hana í þágu allra nemenda.
Söfnun gagna, greining og rýni í niðurstöður matstækja Lesferils gera skólum kleift að kortleggja heildarstöðu lestrar innan alls skólans. Við greininguna fást einnig niðurstöður sem leggja má m.a. til grundvallar skipulagningar lestrarkennslu inni í bekk eða hjá árgangi, skipulagningar stoðþjónustu (lestrarstuðnings), forgangsröðunar fjármagns og mannauðs og áherslna í starfsþróunaráætlun skóla.
Það er mikilvægt fyrir skóla að hafa í huga að með notkun matstækja skapast ákveðin siðferðileg skylda til að bregðast við niðurstöðum með skýrum og afgerandi hætti. Þannig ber kennurum að læra vel á matstækin, þekkja hugsmíðina sem liggur að baki hverju prófi, að vanda framkvæmd og túlkun og vera vel í stakk búnir til að bregðast við niðurstöðum allra nemenda. Þannig verður til ákveðin hringrás sem í raun tekur ekki enda fyrr en allir nemendur hafa náð fullnægjandi árangri eða eins góðum og þeir hafa forsendur til.