PISA - könnunin

PISA -Rannsóknir
PISA -Rannsóknir

PISA er umfangsmikil alþjóðleg könnun á hæfni og getu 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og læsi á stærðfræði. Sá aldur er valinn þar sem hann markar lok skólaskyldu í flestum löndum. PISA er skammstöfun fyrir enska heiti könnunarinnar Programme for International Student Assessment og er hún á vegum OECD.

Alls taka 80 þjóðir þátt í könnuninni, þar af 37 aðildarríki OECD. Menntamálastofnun sér um framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins. 

Könnunin er lögð fyrir á þriggja ára fresti og í hverri könnun leysa nemendur verkefni í lesskilningi, læsi á stærðfræði og læsi á náttúruvísindi. Í hverri könnun er lögð sérstök áhersla á eitt sviðanna þriggja og megnið af verkefnum og spurningum eru af því sviði. Ísland hefur tekið þátt í PISA frá fyrstu könnun árið 2000 þegar 43 ríki tóku þátt.

Í PISA 2018 var áhersla lögð á að meta lesskilning þátttakenda. Könnunin var lögð fyrir í mars og apríl á Íslandi, tæplega 3300 nemendur tóku þátt og svarhlutfall var 87%. 

Nánari upplýsingar um PISA 2018 er að finna í skýrslu Menntamálastofnunnar um helstu niðurstöður PISA 2018 á Íslandi og í niðurstöðuskýrslum OECD .