- Viðurkenningarbréf skal birta á vef skóla ásamt skólanámskrá, námsbrautalýsingu og verðskrá og gjaldtökureglum, ef um slíkt er að ræða.
- Byggi skólinn rekstur sinn á skólagjöldum gerir Menntamálastofnun þá kröfu að nemendur séu með staðfestum hætti upplýstir um gjöldin og skilmála sem gilda um innheimtu þeirra og rétt til endurgreiðslu.
- Áður en nemendur eru teknir inn í skólann skal þeim leiðbeint um hvar skólanámskrá og námsbrautarlýsing er birt og þeir hvattir til að kynna sér skipulag á námsbraut, námskröfur og ákvæði um skyldur og réttindi nemenda og ábyrgð skólans á eigin starfsemi.
- Skólanum ber, skv. reglugerð um viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi, að senda veitanda viðurkenningarinnar árlega skýrslu um starfsemina og hafa frumkvæði að því að upplýsa hann um breytingar sem kunna að verða á starfsemi eða fjárhag sem þessi viðurkenning byggir á.
- Ósk um endurnýjun viðurkenningar ásamt fullnægjandi gögnum þarf að berast a.m.k. þremur mánuðum áður en hún rennur út, eigi að vera tryggt að hægt sé að afgreiða hana fyrir þann tíma.
- Uppfylli skólinn ekki lengur skilyrði laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 eða reglugerðar um viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi nr. 426/2010 er hægt að afturkalla viðurkenninguna.
Ársreikningur
Á hverju ári skal skóli skila inn ársreikningi til Menntamálastofnunar sem áritaður er af löggiltum endurskoðanda án fyrirvara.