Spurningar og álitamál um námsbrautir

Hver er skilgreiningin á einingu á námsbrautum framhaldsskóla?
Einingakerfið byggir á því að meta vinnu nemenda. Einingarnar mæla vinnuframlag nemenda og er miðað við að ein eining sé ígildi um það bil þriggja daga vinnu (1 eining = 18–24 klukkustundir). Fullt nám miðast við 60 einingar á einu skólaári. Á stúdentsbrautum taka nemendur að jafnaði 66–68 einingar á skólaári til að ljúka á þremur árum.

Á hverju byggjast hæfniþrep brauta- og áfangalýsinga?
Í almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla er þekkingar-, leikni- og hæfniviðmiðum námsgreina lýst. Lýsingarnar miðast við hæfniramma um íslenskt menntakerfi, ISQF (Icelandic Qualification Framework), sem er útfærsla á evrópska viðmiðarammanum, EQF (European Qualification Framework). Með kerfinu er unnt að flokka allt nám á framhaldsskólastigi og auðvelda samanburð og mat á námi milli ólíkra námsbrauta, skóla og landa.

Hvaða námsbrautir þurfa að hafa 3ja tungumál?
Aðeins bóknámsbrautir til stúdentsprófs gera kröfu um 3ja tungumál. Ráðuneyti setur 13-15 einingar sem viðmið til að ná hæfni upp að öðru hæfniþrepi sem er viðmið aðalnámskrár. Samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla má fella viðmið evrópsku tungumálamöppunnar sem einkenna þrep A1, A2 og að hluta B1 að þekkingu, leikni og hæfni á fyrsta hæfniþrepi íslenska viðmiðarammans.

Hvað þarf að taka margar einingar í 3ja tungumáli?
Bóknámsbrautir til stúdentspróf gera kröfu um 3ja tungumál upp að öðru hæfniþrepi. Ráðuneyti setur 13–15 einingar sem viðmið til að ná því. Samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla má fella viðmið evrópsku tungumálamöppunnar sem einkenna þrep A1, A2 og að hluta B1 að þekkingu, leikni og hæfni á fyrsta hæfniþrepi íslenska viðmiðarammans.

Hvernig á að skipuleggja íþróttir á stúdentsbrautum?
Drög að breytingum á aðalnámskrá framhaldsskóla bíða samþykktar.

Hvaða viðmið eru um námstíma til stúdentsprófs?
Námstími til stúdentsprófs skal vera 3 ár.

Hvaða viðmið eru um námstíma á starfsbrautum?
Námstími á starfsbrautum er 4 ár. Fjöldi námsáfanga og eininga er einstaklingsbundinn á námstímanum.

Eru viðmið um inntökuskilyrði á stúdentsbrautir?
Almennt gildir um inntökuskilyrði á stúdentsbrautir að nemandi hafi lokið grunnskóla. Einkunnaskali grunnskólans byggir á hæfni og gefnir eru bókstafir. Til að hefja nám á öðru hæfniþrepi í dönsku, ensku, íslensku eða stærðfræði þarf nemandi hins vegar að hafa náð a.m.k. hæfnieinkunn B við lok grunnskóla eða að hafa lokið fyrsta þreps námi í þessum greinum.

Geta framhaldsskólar sett ákveðin inntökuskilyrði?
Í lögum um framhaldsskóla, 32. gr., segir að skólinn beri ábyrgð á innritun nemenda en jafnframt segir í sömu grein að í samningi ráðuneytis og skóla, 44. gr., skuli kveða á um skyldur einstakra framhaldsskóla við innritun nemenda og þær forsendur sem skóli leggur til grundvallar innritun nemenda. Ráðherra getur auk þess sett sérstök fyrirmæli um innritun í reglugerð. Þetta þýðir að einstakir skólar geta ekki einhliða sett skilyrði fyrir innritun nemenda og að skilyrðin eru háð samkomulagi við ráðuneytið.

Hvað eru kjarnagreinar?
Kjarnargreinar eru íslenska, enska og stærðfræði.

Hvað þarf kjarni til stúdentsprófs að vera stór?
Aðalnámskrá gerir einungis lágmarkskröfu um 45 einingar í kjarnagreinum sem skiptast á ensku, íslensku og stærðfræði. Á bóknámsbrautum til stúdentsprófs er jafnframt gerð krafa um norrænt tungumál að þriðja hæfniþrepi og lágmarkskrafa um 13–15 einingar í þriðja tungumáli að 2. hæfniþrepi. Að öðru leyti er skólum veitt frelsi til að sérhæfa sig og bjóða upp á námsleiðir sem endurspegla sérstöðu þeirra og styrk.

Hvaða viðmið gilda um kjarnagreinar á stúdentsbrautum?
Námsbrautir til stúdentspróf skulu innihalda að lágmarki 45 einingar í kjarnagreinum (íslensku, ensku og stærðfræði). Í íslensku skulu vera að lágmarki 20 einingar, þar af 10 á hæfniþrepi 3. Lágmark er 5 einingar í ensku og stærðfræði á hæfniþrepi 2. Ef valið er lágmark í ensku eða stærðfræði þarf að taka fleiri einingar í hinu. Að auki skulu skólar hafa inntökuviðmið háskóla í huga við skipulag brauta.

Eru einhver viðmið um hæfniþrep kjarnagreina á stúdentsbrautum?
Kjarnagreinar á stúdentsbrautum byrja á hæfniþrepi 2. Hafi nemandi ekki náð hæfnieinkunn B í kjarnagrein þarf hann að taka áfanga á hæfniþrepi 1 áður en hann hefur nám í áfanga á hæfniþrepi 2.

Hvað er framhaldsskólapróf?
Þetta er próf úr framhaldsskóla á hæfniþrepi 1 eða 2 sem getur verið allt frá einni önn upp í fjórar annir. Það getur verið einstaklingsmiðað og þannig hjálpað sem flestum að ákveða áframhald í námi eða starfi. Að framhaldsskólaprófi loknu geta nemendur útskrifast eða farið á aðrar námsbrautir. Með þessum námsleiðum er verið að bjóða ungu fólki nám við hæfi. Framhaldsskólapróf gefur ekki réttindi til starfa.

Hvaða viðmið gilda um fjölda eininga í kjarnagreinum á framhaldskólabrautum á hæfniþrepi 1?
Ekki eru ákveðin viðmið um kjarnagreinar í aðalnámskrá en skólum ber að horfa til grunnþátta og lykilhæfni hvað þetta varðar.

Hvaða viðmið gilda um fjölda eininga í kjarnagreinum á framhaldskólabrautum á hæfniþrepi 2?
Ekki eru ákveðin viðmið um kjarnagreinar í aðalnámskrá en skólum ber að horfa til grunnþátta og lykilhæfni hvað þetta varðar.

Hvaða hlutverki sinna starfsgreinaráð við staðfestingar á námsbrautalýsingum?
Starfsgreinaráð hinna ýmsu starfsgreina semja starfalýsingar og hæfnikröfur fyrir störfin. Skólar skipuleggja starfsnámsbrautir sem uppfylla þessar kröfur. Starfsgreinaráð fá síðan námsbrautalýsingar til umsagnar í staðfestingarferlinu.

Hvaða nám getur fallið undir önnur lokapróf?
Hér er um að ræða starfsnám sem skólar skipuleggja eftir starfalýsingum og hæfnikröfum en veita ekki lögvarin starfsréttindi. Þessar námsbrautalýsingar fara að jafnaði til umsagnar hjá starfsgreinaráðum.