Spurt og svarað um PISA

 • Hvað er PISA?

  PISA er könnun, gefin út af Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD), sem kannar lesskilning fimmtán ára gamalla nemenda og læsi þeirra á náttúruvísindi og stærðfræði. Sjötíu og tvö ríki tóku þátt í könnuninni árið 2015, þar sem náttúruvísindi voru í brennidepli. Gögn sem unnin voru upp úr könnuninni eru aðgengileg á vef OECD

 • Hvernig eru skólar valdir til þátttöku í PISA?

  PISA beitir nákvæmum viðmiðum þegar kemur að því að velja skóla og nemendur innan þeirra til þátttöku. Aðferðir við val á úrtökum eru gæðatryggðar og fengin úrtök og samsvarandi svarhlutföll eru sett í matsferli sem sannreynir hvort þau hafi mætt settum viðmiðum eða ekki. Ef svarhlutfall einhvers lands nær ekki settu marki, er það tilkynnt. Frekari upplýsingar um svörunarhlutföll fyrir PISA er hægt að finna á PISA-vefsíðu OECD, og nákvæmar upplýsingar um þátttökuhlutföll einstakra landa má finna í 1. og 2. bindi skýrslu OECD um PISA-könnunina 2015.

 • Hvað er það sem PISA metur og hvers vegna?

  PISA einbeitir sér fyrst og fremst að mati á frammistöðu nemenda í lesskilningi, stærðfræði og náttúruvísindum, því það eru undirstöðugreinar í skyldunámi nemenda. PISA safnar líka mikilvægum upplýsingum um viðhorf nemenda og áhuga, metur færni á formlegan hátt, eins og til dæmis getu til samvinnu við þrautaúrlausnir og kannar tækifæri til þess að meta aðra mikilvæga hæfni sem er til dæmis tengd almennri færni, sköpunargáfu og frumkvæði. PISA notast við efni sem finna má í námskrám um allan heim og lýtur að getu nemenda til að beita þekkingu og færni og til að greina, rökstyðja og miðla upplýsingum á skilvirkan hátt á meðan þeir skoða, túlka og leysa verkefni. PISA mælir hvorki fyrir um né styður neina eina námskrá, né er könnuninni beitt til að finna samnefnara. Markmið PISA fyrir árið 2015 var að meta þekkingu og færni á sviði náttúruvísinda sem sérfræðingar í þátttökuríkjunum töldu vera hvað mikilvægasta fyrir framtíðarvelgengni nemenda í veröld sem reiðir sig æ meira á náttúruvísindi.

 • Hvers konar dæmi eru notuð í PISA og hvers vegna?

  PISA notast fyrst og fremst við krossaspurningar í könnunum sínum því þær eru áreiðanlegar, skilvirkar og auðvelda vísindalegar greiningar. Krossaspurningar PISA eru margbreytilegar í sniði, allt frá því að beina athygli að einu orði í texta, tengja saman upplýsingar eða velja rétt svar úr lista yfir mörg möguleg svör. Um þriðjungur spurninga í PISA-könnunum eru opnar spurningar þar sem nemandinn þarf að tjá svar sitt í eigin orðum og sérþjálfað starfsfólk metur svo samkvæmt stöðluðum viðmiðum. 

 • Hvers vegna er PISA-könnunin lögð fyrir á þriggja ára fresti og hvers vegna eru fimmtán ára gamlir nemendur metnir?

  Aðalmarkmið PISA er að veita yfirvöldum í þátttökulöndum upplýsingar og stuðning við ákvarðanatöku sem snýr að stefnumótun menntamála. Könnun sem lögð er fyrir á þriggja ára fresti sér löndum fyrir tímabærum upplýsingum sem innihalda gögn og greiningar til þess að íhuga áhrif stefnuákvarðana og annarra skyldra framkvæmdaáætlana. Ef könnunin væri oftar lögð fyrir myndi ekki nægur tími veitast til þess að sjá þær fram- eða afturfarir sem breytingar og nýjungar koma til leiðar og ef hún væri sjaldnar lögð fyrir myndi það þýða að ekki væri hægt að taka snögglega í taumana varðandi hnignandi frammistöðu. Meðalaldurinn fimmtán ár var valinn vegna þess að á þessum aldri nálgast flestir unglingar í aðildarríkjum OECD lok skyldunáms. Val á skólum og nemendum er eins víðtækt og hægt er til þess að nemendaúrtakið endurspegli sem víðastan bakgrunn og getu. 

 • Hvernig stuðlar PISA að endurbótum innan menntakerfa?

  OECD leitast við að bera kennsl á hvaða stefnur og starfshættir það eru sem virðast virka í löndum sem sýna góða frammistöðu eða hafa sýnt merki um miklar framfarir í PISA-könnunum gegnum árin. Stofnunin gefur út skýrslu um athuganir sínar og styður við bakið á þeim löndum sem vilja skoða hversu mikið þau gætu hagnast af svipuðum framkvæmdaráætlunum. Efnahags- og framfarastofnunin er mjög meðvituð um mismunandi aðstæður í hinum ýmsu löndum (þar sem meira en 80 lönd munu taka þátt í PISA árið 2018). Það er ekki til neitt eitt kennslulíkan sem hentar öllum löndum. Það er hvorki mögulegt né við hæfi að taka menntakerfi eins lands og troða því upp á annað.

 • Hvernig hefur PISA hjálpað löndum að bæta menntakerfi sín?

  Í könnun á vegum OECD frá 2012 í þátttökuríkjum PISA kemur fram að mikill meirihluti svarenda sagði að stefnur þeirra ríkja, sem standa sig vel í könnuninni eða sýna miklar framfarir, hefðu haft áhrif á þeirra eigin ákvörðunartöku þegar kemur að stefnumótun. Svipaður fjöldi svarenda gaf líka í skyn að PISA hefði haft áhrif á þróun nýrra þátta í námsmati. Þegar kom að námsskrárgerð og stöðlun vísuðu margir svarendur í þau áhrif sem PISA-kenningarammar hafa haft, m.a. samanburð á aðalnámskrá við PISA-ramma og námsmat, mótun á sameiginlegum stöðlum á landsvísu, áhrif á þeirra eigin viðmið um lestur, innleiðingu hæfniviðmiða í þeirra eigin námsskrám sem svipar til PISA og við að setja upp hæfnistaðla á landsvísu.

 • Hvernig get ég aflað mér frekari upplýsinga um PISA-könnunina og hver þróar hana?

  Á vef OECD og í útgefnu efni stofnunarinnar er að finna allar lykilupplýsingar um þær aðferðir og úrvinnslu sem liggja að baki PISA-könnununum og er efnið gert aðgengilegt almenningi sem og sérfræðingum. Þar á meðal má finna kenningaramma sem útskýra hvað meta skal og hvernig, dæmi um prófspurningar og spurningarlista, ítarlega skýrslu fyrir hvert tímabil sem inniheldur nákvæmar tæknilegar upplýsingar um allar hliðar mats og greiningar, gagnagrunna og leiðbeiningar um notkun þeirra sem aðstoðar rannsóknarmenn við frekari greiningar og athuganir á gögnunum, handbækur fyrir framkvæmd könnunarinnar og gæðatryggingu málnotkunar og mikilvægar staðreyndir og upplýsingar. Auk starfsmanna og verktaka OECD eru hundruð sérfræðinga, fræðimanna og rannsóknarmanna frá löndum sem taka þátt í PISA viðriðin þróun kannananna, greiningu þeirra og skýrslugerð. Ítarefni um þessa aðila má finna bæði í PISA-skýrslum og á vefsíðu OECD um PISA.