1. Forsíða
  2. Staðalbundndar og viðmiðsbundnar einkunnir

Staðalbundndar og viðmiðsbundnar einkunnir

Almennt um einkunnir – smá fróðleikur um flókinn heim námsmats

Einkunnir hafa almennt tvenns konar ólíka eiginleika og nýtast með ólíkum hætti, ýmist til að fjalla um niðurstöður einstaklinga eða hópa. Einkunnir geta annars vegar verið staðalbundnar og hins vegar viðmiðsbundnar.

Staðalbundnar einkunnir endurspegla stöðu nemenda innan ákveðinnar dreifingar. Raðeinkunnir, samræmd grunnskólaeinkunn og framfaratölur tilheyra þessum flokki einkunna. Þær nýta sér eiginleika ákveðinna fræðilegra dreifinga sem ramma til að auðvelda túlkun niðurstaðna. Í megindráttum byggja staðalbundnar einkunnir á stöðu nemanda með tilliti til árgangsins og niðurstöður því afstæðar. Samræmd grunnskólaeinkunn og framfaratölur notast við normaldreifingu en raðeinkunn við einsleita dreifingu sem einnig er þekkt sem kassadreifing. Ávinningurinn af þessu er að sama einkunn hefur sömu merkingu milli ólíkra námsgreina, aldursstiga og ára. Til að mynda er raðeinkunn sambærileg milli íslensku og stærðfræði, milli 4. bekkjar og unglingastigs og frá einu ári til annars.

Viðmiðsbundnar einkunnir byggjast á skilgreiningum eða lýsingum á færni sem nemandinn hefur á valdi sínu, hvað hann kann og getur. Hæfnieinkunn hefur eiginleika slíkra einkunna. Hún byggist á skilgreiningum á kunnáttu, leikni og færni sem fjallað er um í kafla 9.4 í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011. Viðmiðsbundnar einkunnir eins og hæfnieinkunnir gefa annars konar sýn á stöðu nemenda og endurspegla að hvaða marki nemandi hefur náð valdi á ákveðinni færni eða hæfni. Slíkar einkunnir nota alla jafna mun færri þrep eða einkunnapunkta en staðalbundnar einkunnir. Algengast er að notaðir séu tveir til fjórir flokkar eða einkunnir á slíkum kvörðum. Byrjað var að nota hæfnieinkunnir með niðurstöðum samræmdra könnunarprófa á unglingastigi frá haustinu 2014 en gert er ráð fyrir að þær verði teknar upp í 4. og 7. bekk þegar matsviðmið bætast við aðalnámskrá.