1. Forsíða
  2. Um okkur
  3. Um Menntamálastofnun

Um Menntamálastofnun

Menntamálastofnun tók að fullu til starfa þann 1. október 2015 en lög um stofnunina voru samþykkt á Alþingi í júlí það ár. Samkvæmt lögum nr. 91/2015 er Menntamálastofnun stjórnsýslustofnun á sviði menntamála sem stuðla skal að auknum gæðum skólastarfs og framförum í þágu menntunar í samræmi við lög og stefnu stjórnvalda, bestu þekkingu og alþjóðleg viðmið.

Menntamálastofnun hefur skilgreint sem tilgang sinn ,,að nemendur fái notið bestu mögulegrar menntunar“. Að því miðar allt starf stofnunarinnar innan þess ramma sem lög og stefna stjórnvalda setur. Menntamálastofnun kappkostar að þau gögn sem stofnunin aflar, greinir og miðlar séu áreiðanleg, gagnreynd og skiljanleg. Fyrst og fremst eiga þau að nýtast í þágu aukins árangurs nemenda og betri þjónustu við þá. Á það við um niðurstöður prófa og mats, greiningar og töluleg gögn sem og námsgögn. Einnig leggur Menntamálastofnun áherslu á að öflun, greining og miðlun gagna nýtist stjórnvöldum við að fylgja eftir stefnu sinni og í þágu mats á þeirri stefnu.

Verkefni og skipulag

Umfangsmikil verkefni á sviði menntamála eru falin Menntamálastofnun með lögum nr. 91/2015.  Stofnunin hefur nú með höndum verkefni sem áður voru á hendi Námsgagnastofnunar, Námsmatsstofnunar og mennta- og menningarmálaráðuneytis. Einnig hefur Menntamálastofnun verið falin umsjón með nýjum verkefnum og má þar nefna umsjón með innleiðingu Þjóðarátaks um læsi.

Þau verkefni sem Menntamálastofnun sinnir eru í megindráttum fjórþætt:

Í fyrsta lagi ber stofnuninni að sjá öllum grunnskólanemendum  fyrir fjölbreyttum og vönduðum námsgögnum sem eru í samræmi við aðalnámskrá. Í þessu verkefni felast umtalsverðar skyldur bæði hvað varðar gerð námsefnis og þjónustu við skóla. Einnig er í lögum um Menntamálastofnun gert ráð fyrir að stofnunin geti haft hlutverk varðandi námsgögn á öðrum skólastigum.

Í öðru lagi skal Menntamálastofnun hafa eftirlit og meta með mælingum árangur af skólastarfi. Í þessu felst að sjá um samræmd próf í grunnskólum en einnig undirbýr stofnunin nú skimunarpróf sem ná munu til bæði leik- og grunnskóla. Stofnunin sér nú um framkvæmd Aðgangsprófa í Háskóla Íslands og til greina kemur að hún sinni námsmati á framhaldsskólastigi. Menntamálastofnun sér einnig um eftirlit og mat á leik-, grunn- og framhaldsskólum. Loks sinnir stofnunin eftirliti og mælingum á stöðu skólakerfisins út frá alþjóðlegum viðmiðum.

Í þriðja lagi annast Menntamálastofnun söfnun, greiningu og birtingu upplýsinga um menntamál og veitir á grundvelli þeirra stjórnvöldum, fagaðilum og almenningi upplýsingar og leiðbeiningar og veitir ráðherra menntamála aðstoð og ráðgjöf. Í tengslum við þetta hlutverk sér Menntamálastofnun nú um framkvæmd stefnu stjórnvalda um eflingu læsis, Þjóðarátak um læsi.

Í fjórða lagi hefur Menntamálastofnun með höndum framkvæmd ýmissa stjórnsýsluverkefna sem mörg voru áður á hendi mennta- og menningarmálaráðuneytis. Má þar nefna viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi og framhaldsfræðsluaðila, innritun nemenda í framhaldsskóla, undirbúning að staðfestingu námsbrauta- og áfangalýsinga framhaldsskóla m.a. í tengslum við styttingu náms til framhaldsskóla. Einnig hefur stofnunin umsjón með matsnefndum og útgáfu leyfisbréfa fyrir kennara, náms- og starfsráðgjafa og bókasafns- og upplýsingafræðinga og sér um þjónustu fyrir starfsgreinaráð og fagráð gegn einelti.

Í samræmi við þessi meginverkefni hefur Menntamálastofnun skipulagt starfsemi sína með eftirfarandi skipuriti:

Skrifstofa forstjóra sér um fjármál og mannauðsmál stofnunarinnar.

Matssvið hefur með höndum framkvæmd prófa og kannana, úrvinnslu þeirra og framsetningu á niðurstöðum. Á matssviði fer einnig fram ytra mat á leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Miðlunarsvið hefur með höndum gerð og miðlun námsgagna, bæði námsbóka, kennslu-leiðbeininga og stafræns efnis ásamt hönnun viðmóts fyrir notendur alls efnis. Sviðið sinnir einnig þróun námsgagna og stuðningi við kennara um nýtingu þeirra. 

Greiningarsvið sér um staðfestingu námsbrautalýsinga, innritun í framhaldsskóla, viðurkenningar einkaskóla, framhaldsfræðslu og leyfisbréf. Einnig fer fram greining á stöðu skólakerfisins, líðan nemenda og öflun viðeigandi gagna varðandi framgang stefnu stjórnvalda.

Þjónustusvið sér um sameiginlega þjónustu innan stofnunar og við skólasamfélagið. Þar á meðal er rekstur og viðhald fasteigna, þjónustumiðstöð, kynningarmál, umsjón með húsbúnaði og gæða- og skjalastjórnun. Þá hefur sviðið umsjón með uppbyggingu upplýsingakerfa á vegum stofnunarinnar

Sameiginlega sjá sviðin fjögur um miðlun upplýsinga og ráðgjöf.