1. Forsíða
  2. Skólastig
  3. Framhaldsfræðsla
  4. Vottun námskráa í framhaldsfræðslu

Vottun námskráa í framhaldsfræðslu

Framhaldsfræðsla er skilgreind sem hvers konar nám, úrræði og ráðgjöf sem er ætlað að mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki og er ekki skipulagt á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla. Námstilboð í framhaldsfræðslu einskorðast við þennan hóp. Námið er í boði hjá viðurkenndum fræðsluaðila sem sækir um styrk til Fræðslusjóðs. Námskrá þarf að vera vottuð af Menntamálastofnun.

Fræðsluaðilar í framhaldsfræðslu eru þeir sem hafa viðurkenningu á grundvelli laga um framhaldsfræðslu nr. 27/2010. Fræðsluaðilar, eða aðrir fagaðilar sem ráðuneyti telur hæfa, geta sótt um vottun námskráa. Námskrár og námsþættir eru skráðir af fræðsluaðila í námskrárgrunn ráðuneytisins og úr þeim grunni sendir fræðsluaðili formlega umsókn um vottun. Ef námskrá felur í sér starfsmenntun þá er óskað eftir að yfirlýsing samstarfsaðila úr atvinnulífi fylgi með umsókn. 

Mennta- og menningarmálaráðuneyti birtir viðmið um gerð námskráa í framhaldsfræðslu en þær lýsa námstilboði sem samanstendur af einum eða fleiri námsþáttum og felur í sér að lágmarki 40 klukkustunda vinnu námsmanns, í og utan kennslustunda. Viðmiðin nýtast fræðsluaðilum við námskrárgerð og eru höfð til hliðsjónar af Menntamálastofnun við vottun þeirra.

Menntamálastofnun vottar námskrár á grundvelli 6. greinar laga um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 og 8.-10. gr. reglugerðar um framhaldsfræðslu nr. 1163/2011. Markmið með vottuninni er að stuðla að aukinni viðurkenningu náms sem fer fram utan formlega skólakerfisins og tryggja gæði og gegnsæi námstilboða viðurkenndra fræðsluaðila í framhaldsfræðslu. Með vottun er staðfest að námið uppfylli kröfur um skipulag, framsetningu viðmiða og námsmat. Í vottuninni felst jafnframt að viðkomandi nám hefur verið tengt við hæfniþrep.

Vottaðar námsskrár