1. Forsíða
  2. Dagur gegn einelti 2018 haldinn hátíðlegur

Dagur gegn einelti 2018 haldinn hátíðlegur

Dagur gegn einelti 2018 haldinn hátíðlegur

Dagurinn 8. nóvember ár hvert er helgaður baráttunni gegn einelti í skólum. Á þessum degi eru jákvæð samskipti í fyrirrúmi og er skólasamfélagið hvatt til að taka höndum saman gegn einelti.

Einelti hefur margvíslegar afleiðingar bæði fyrir nemendur sem verða fyrir því og þeirra fjölskyldur. Vert er að muna að gerendur eru gjarnan börn sem sjálf hafa þolað einelti og finnst þau valdalaus. Oft er það hinn þögli meirihluti sem lætur einelti viðgangast en færri sýna ábyrgð og bregðast við.

Miðlun góðra lífsgilda, regluleg fræðsla og umræður um einelti og afleiðingar þess eru nauðsynlegar. Öflug forvörn gegn einelti er að veita börnum skipulega þjálfun í að vera saman í leik og starfi þar sem lýðræði, mannréttindi og jafnrétti er haft að leiðarljósi. Þessi færni er liður í því að gera umhverfið jákvæðara þar sem einelti nær síður að skjóta rótum.

Það er ósk Menntamálastofnunar að dagur gegn einelti veiti skólum tækifæri til að auka vitund um mikilvægi jákvæðra samskipta og að gefa út þau skilaboð að brugðist sé við neikvæðu atferli og einelti. Til að auðvelda þessa viðleitni mun stofnunin á næstunni opna upplýsingasíðu um þetta málefni þar sem fagfólk, börn, ungmenni og foreldrar geta nálgast gögn og góð ráð.

Með deginum er hvatt til þess að allir leggi sitt framlag á vogarskálarnar til að stuðla að  gagnkvæmri virðingu, samkennd og jákvæðum samskiptum í skólum. Jákvæður skólabragur skiptir sköpum fyrir líðan og starfsgleði nemenda og starfsfólks og getur haft sömu áhrif og besta forvarnarstarf.

Menntamálastofnun hefur beint því til skóla að þeir hugi að aðgerðum gegn einelti og vinni að bættum skólabrag og góðri líðan nemenda.

Sjá nánari upplýsingar hér.  

skrifað 06. NóV. 2018.