Dagur gegn einelti

Umsýsla dags gegn einelti var flutt til Heimilis og skóla frá Menntamálastofnun árið 2019 og samningur undirritaður þar um.

Dagur gegn einelti

Markmið dagsins sem er að öllu jöfnu haldinn 8. nóvmber ár hver, er m.a. að efna til umræðu, fræðslu og viðburða til að vinna gegn einelti, hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu. 

Forsaga dagsins er sú að Verkefnisstjórn í aðgerðum gegn einelti ákvað á sínum tíma að standa að sérstökum degi gegn einelti 8. nóvember ár hvert og var dagurinn haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti árið 2011. Verkefnisstjórnin var skipuð fulltrúum fjármálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis og var hún skipuð í kjölfarið á útgáfu Greinargerðar um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum sem kom út í júní 2010, þar sem lögð var fram tillaga að því að einn dagur árlega yrði tileinkaður baráttunni gegn einelti og kynferðislegri áreitni (ofbeldi). Greinargerðin var sett fram af óformlegum starfshópi sem í voru fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis, félags- og  tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis og Lýðheilsustöð. Upphaflega tillagan hefur tekið breytingum og hefur dagurinn frá árinu 2017 verið helgaður baráttunni gegn einelti í skólum landsins. 

Hvatningarverðlaun dags gegn einelti.

Í tengslum við daginn veitir mennta- og barnamálaráðuneytið hvatningarverðlaun til einstaklings eða verkefnis sem unnið hefur ötullega gegn einelti. Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum hefur valið verðlaunahafa úr innsendum tilnefningum frá árinu 2020 eða eftir flutning umsýslu dagsins til Heimilis og skóla.

Yfirlit yfir verðlaunahafa: 

2022: Íris Hrund Hauksdóttir, náms- og starfsráðgjafi í Hólabrekkuskóla. Sjá frétt mennta- og barnamálaráðuneytis.

2021: Guðríður Aadnegard umsjónarkennari og náms- og starfsráðgjafi við Grunnskólann í Hveragerði.

2020: Laufey Eyjólfsdóttir, kennari og umsjónarmaður með Olweusarverkefninu í Melaskóla. 

2019: Vanda Sigurgeirsdóttir fyrir ötult starf gegn einelti. Vanda er þekkt fyrir vinnu sína með börnum og fullorðnum að eineltis- og samskiptamálum. 

2018: Vinaliðaverkefnið er forvarnarverkefni sem hvetur nemendur til meiri þátttöku í afþreyingu í frímínútum. Verkefnið miðar að því að auka jákvæð samskipti, hreyfingu og vellíðan og vinnur þannig gegn einelti. Markmið verkefnisins er að bjóða nemendum fjölbreyttara úrval afþreyingar í löngu frímínútunum, þannig að nemendur skólans finni eitthvað við sitt hæfi. Sjá til fróðleiks fréttatilkynningu mennta- og menningarmálaráðuneytis. 

2017: Vináttuverkefni Barnaheilla. Sjá til fróðleiks fréttatilkynningu Menntamálastofnunar.

2015: Verkefni Reykjavíkurborgar Vinsamlegt samfélag. Með vinsamlegu samfélagi er átt við samfélag þar sem framkoma allra einkennist af virðingu, samkennd og ábyrgð. Þar er einelti ekki liðið en þegar þörf krefur er tekið skipulega á því í samræmi við eineltisáætlun skólans/frístundamiðstöðvarinnar og stefnu borgarinnar. Mikilvægt er að samræma eins og kostur er viðhorf og skilaboð allra starfsmanna um framkomu og samskipti til barnanna í borginni og efla það starf leik- og grunnskóla og frístundamiðstöðva sem stuðlar að vinsamlegu samfélagi meðal barna og starfsmanna.Sjá til fróðleiks fréttatilkynningu mennta- og menningarmálaráðuneytis og frétt frá Leikskólanum Álfaheiði þar sem hátíðardagskráin var haldin.

2014: Magnús Stefánsson og Páll Óskar Hjálmtýsson vegna jákvæðra skilaboða gegn einelti til samfélagsins. Þeir framleiddu heimildarmynd um æsku Páls Óskars og í framhaldinu gerðu þeir fræðsluverkefnið; Þolandi og gerandi, þar sem þeir ræddu við grunnskólabörn og miðluðu reynslu sinni sem þolandi og gerandi eineltis.Sjá fréttatilkynningu.

2013: Þorlákur Helgi Helgason, framkvæmdastjóri Olweusarverkefnisins gegn einelti fyrir ötult starf í baráttunni gegn einelti í skólasamfélaginu. Sjá fréttatilkynningu

2012: Kvennalandsliðið í knattspyrnu fyrir jákvæð skilaboð gegn einelti og mikilvægi þess að fagna fjölbreytileikanum. Sjá fréttatilkynningu. Landsliðið tók sig saman fyrir landsleikinn fyrir Úkraníu og útbjó myndband til þess að vekja athygli á mikilvægi þess að fagna fjölbreytileikanum og settu það á youtube. Yfirskriftin á myndbandinu er „Fögnum fjölbreytileikanum“ og þýðir að við eigum ekki að dæma hvert annað á útliti, kynþætti, kyni, kynhneigð, skoðunum eða þeim hlutum sem móta manneskjuna. Það er allt í lagi að hafa mismunandi skoðanir og vera öðruvísi svo lengi sem fólk kemur fram af virðingu við sjálft sig og aðra. Lagið samdi Katrín Ómarsdóttir en hún samdi textann ásamt Mist Edvarsdóttur. Lagið er flutt af Mist og Rakel Hönnudóttur. Allar stelpurnar í landsliðinu skrifuðu síðan skilaboð gegn einelti sem þær halda á lofti í myndbandinu. Sjá myndbandið á YouTube hér.

Fréttatilkynningar og dreifibréf vegna dags gegn einelti

2018

2017

2016

2015

2014

2013

2012

2011