1. Forsíða
  2. Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum

Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum

Fagráð eineltismála veitir ráðgjöf og tekur á málum sem varða nemendur í grunnskólum og framhaldsskólum.

Hlutverk fagráðs eineltismála

Fagráðið hefur tvíþættu hlutverki að gegna. Í fyrsta lagi er fagráðið stuðningsaðili við skólasamfélagið, sem meðal annars getur falist í almennri ráðgjöf, leiðbeiningum og upplýsingagjöf.  Í öðru lagi er hægt að vísa eineltismálum til fagráðsins ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn á eineltismálum innan skóla eða sveitarfélags eða vegna meints aðgerðaleysis sömu aðila. Skal þá fagráðið veita ráðgefandi álit á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem því berast í tilteknu máli.

Hverjir geta leitað til fagráðs eineltismála?

Til fagráðsins geta leitað nemendur, foreldrar/forráðamenn og starfsfólk grunn- og framhaldsskóla. Jafnframt aðrir sem starfa með börnum í starfi sem hefur stoð í grunnskólalögum (starfsemi frístundaheimila fyrir nemendur í yngri árgöngum grunnskóla óháð rekstrarformi, félags- og tómstundastarf sem fram fer sem hluti af starfsemi grunnskóla, starfsemi skólabúða þar sem nemendur dvelja um stundarsakir og vettvangsferða og skólaferðalaga á vegum skólans eða foreldra og allrar annarrar starfsemi á vegum grunnskóla).

Lög og reglur

Fagráðið starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis en umsýsla þess er hjá Menntamálastofnun. Fagráðið starfar á grundvelli laga nr. 102/2021 um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, og lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008 (fagráð eineltismála). Hlutverk þess hefur verið nánar útfært í reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum og ákvæði í reglugerð nr. 326/2016 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum. Fagráðið vinnur skv. verklagsreglum nr. 30/2019 um starfsemi fagráðs eineltismála í grunn- og framhaldsskólum.

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum til þriggja ára í senn. Það er skipað þremur aðalmönnum og þremur varamönnum sem hafa þekkingu, menntun og reynslu sem nýtist við forvarnir gegn einelti og við úrlausn samskiptavanda og eineltis í skólum.

Hvernig á að senda fyrirspurn til fagráðsins?

Ráðgjöf, leiðbeiningar og upplýsingar um eineltismál er hægt að nálgast með því að senda fyrirspurn á netfangið [email protected].  Einnig er hægt að hringja í síma 514 7500.  Metið er hverju sinni hvort fyrirspurnum sé svarað af starfsmanni fagráðs eða í kjölfar funda fagráðs.

Tilgreina þarf hvort tilkynnandi sé nemandi, foreldri, starfsmaður eða hvernig viðkomandi tengist málinu á annan veg. Einnig þarf að tilgreina aldur þess/þeirra er málið varðar. 

Hvernig á að vísa máli til fagráðs eineltismála?

Vísun máls til fagráðs  fer þannig fram að tölvupóstur er sendur á netfangið [email protected] með upplýsingum sem tilgreindar eru á vefslóðinni https://mms.is/visun-mals 

Ef aðstoðar er þörf er hægt að hringja í síma 514 7500 eða hafa samband í netfangið [email protected]

Fagráðið aflar frekari upplýsinga frá málsaðilum, bæði skriflega og með samtölum og er það háð eðli máls hverju sinni hvaða upplýsingum er kallað eftir og hverjir eru kallaðir í samtal.  Eftir það tekur fagráð ákvörðun um hvort málið sé hæft til  formlegrar vinnslu fagráðs. Ráðgefandi álit er síðan gefið út og er það álitsgerð um málið og afstaða fagráðs til þess.

Ef fagráðið telur að málið heyri ekki undir það skv. verklagsreglum er málshefjanda leiðbeint um viðeigandi næstu skref í málinu allt eftir eðli þess.

Eftirfylgni er með ráðgefandi áliti fagráðs til að kanna hver sé staða máls og hvort þeim ráðleggingum sem fagráðið leggur til í áliti sínu hafi verið fylgt. Ef ráðleggingum fagráðs hefur ekki verið fylgt eftir á fullnægjandi hátt að mati fagráðsins er mennta- og menningarmálaráðuneyti tilkynnt um það. Ráðuneytið metur síðan hvort ástæða sé til að aðhafast eitthvað frekar í málinu þar sem fagráðið hefur ekki úrskurðarvald í máli né tekur ákvarðanir um réttindi og skyldur.

Fagráðið leggur áherslu á að finna farsælar leiðir til að takast á við vandann og gefa öllum aðilum tækifæri til að axla ábyrgð, fremur en að skilgreina meint einelti eða alvarleika þess. Fagráðið vinnur ávallt út frá hagsmunum þeirra barna sem um ræðir, er hlutlaus aðili sem dregur ekki taum neins, hvorki skólasamfélagsins, sveitarfélaga né foreldra og barna/nemenda. Markmið fagráðs er að vera lausnamiðað fyrir alla aðila og stuðla að lausn mála með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.

Upplýsingar um eineltismál

Upplýsingar um eineltismál má nálgast á vefsíðu Menntamálastofnunar gegneinelti.is

Upplýsingarnar eru ætlaðar sérstaklega fyrir foreldra, börn,ungmenni og fagfólk. Fjallað er um m.a. hvert sé best að leita eftir upplýsingum ef grunur leikur á að um einelti sé að ræða. Einnig er fjallað um forvarnir, félagslega vellíðan, skólabrag, almenn samskipti og samskipti á netinu, úrræði, leiðbeiningar við gerð verkferla/eineltisáætlunar. Á vefsíðunni er einnig teiknimyndbandið Saman gegn einelti

 

skrifað 31. áGú. 2021.