Vísun máls

Hægt er að vísa málum til fagráðs eineltismála ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn á innan skóla, sveitarfélags eða vegna meints aðgerðaleysis sömu aðila.  

Fagráðið tekur á eineltismálum sem varða nemendur í grunn- og framhaldsskólum.

Þeir sem geta leitað til fagráðs eru:

 1. Foreldrar og forsjáraðilar nemenda.
 2. Nemendur.
 3. Starfsfólk skóla.
 4. Stjórnendur skóla.
 5. Aðrir sem starfa með börnum í skóla-, frístunda- eða tómstundastarfi sem hefur stoð í grunnskólalögum (átt er við alla starfsemi á vegum grunnskóla, m.a. starfsemi frístundaheimila í yngri árgöngum grunnskóla óháð rekstrarformi, félags- og tómstundastarf, starfsemi skólabúða þar sem nemendur dvelja um stundarsakir, vettvangsferðir og skólaferðalög).

Vísun máls til fagráðs eineltismála fer þannig fram:

Þú sendir tölvupóst á netfangið [email protected] og gefur upp eftirfarandi upplýsingar:

 1. Nafn sendanda, kennitölu og símanúmer.
 2. Tengsl sendanda við barnið.
 3. Nafn barns, kennitölu, í hvaða bekk.
 4. Nöfn foreldra.
 5. Nöfn forsjáraðila.
 6. Nafn skóla.
 7. Skólastjórnandi.
 8. Hvenær hófst vandinn?
 9. Hvernig lýsir vandinn sér?
 10. Hvernig er málið statt í dag?
 11. Hverjar hafa verið aðgerðir skólans (t.d. umsjónarkennara, stjórnenda, eineltisteymis, náms- og starfsráðgjafa og fl.)?
 12. Hafa aðrir aðilar komið að málinu (t.d. sérfræðiþjónusta, skólaskrifstofa sveitarfélagsins og fl.)?
 13. Hvaða væntingar eru til fagráðs varðandi umfjöllun um málið?
 14. Aðrar upplýsingar sem þú vilt koma á framfæri?
 15. Upplýst samþykki þitt á upplýsingaöflun fagráðs vegna vinnslu máls. Vinsamlegast láttu eftirfarandi setningu fylgja með. Með því að vísa máli til fagráðs staðfestist að ég hef kynnt mér neðangreint og skil hvað í því felst og veiti samþykki mitt fyrir öflun fagráðs á upplýsingum um mál það sem ég vísa til þess.

Farið er með öll gögn í samræmi við persónuverndarstefnu Menntamálastofnunar. Vakin er sérstök athygli á því að skv. 3. mgr. 30. gr. a laga um grunnskóla nr. 91/2008, og samhljóðandi ákvæði 3. mgr. 33. gr. c laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 ber fagráði að upplýsa málsaðila skriflega um fyrirhugaða upplýsingaöflun samkvæmt framangreindu sem fagráði eineltismála er heimilt til þess að vinna að lausn málsins og í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónupplýsinga, nr. 90/2018 og 14. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679. Fagráð eineltismála leitast við í vinnslu mála sem til þess er vísað að afla ekki frekari gagna en þeirra sem teljast nauðsynleg vegna starfsemi og hlutverks fagráðsins.

Vakin er athygli þín á því að ef gögn máls tilgreina önnur börn en þitt barn ber fagráðinu skylda til að afhenda upplýsingar til viðkomandi forsjáraðila óski þeir eftir því, sbr. reglugerð um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín nr. 897/2009 og upplýsingalög nr. 140/2012. Í stað þess að nafngreina viðkomandi nemanda má setja „nemandi X“, Nemandi Y“ o.s.frv. í staðinn.

Örugg skil gagna í vinnslu máls. Gagnasendingar á milli fagráðs og málsaðila eru í gegnum SignetTransfer. Ef ekki er hægt að koma því við þá eru gögn send með ábyrgðarpósti.

Hvert er ferlið eftir vísun máls?

Eftir að vísun máls berst fagráði, þá aflar fagráð frekari upplýsinga frá málsaðilum, í flestum tilfellum frá skóla og skólaskrifstofu. Eftir það er tekin ákvörðun um hvort að málið sé hæft í vinnslu fagráðs, þ.e. öllum kröfum skv. verklagsreglum sé uppfyllt.

Ef fagráðið telur að málið sé hæft til vinnslu er það tekið til formlegrar afgreiðslu og ferlið er eftirfarandi:

 • Aflað er frekari upplýsinga og eru samtöl oftast tekin við málsaðila (þann sem vísar málinu til fagráðs, þolanda, geranda, fulltrúa skóla og fulltrúa skólaskrifstofu). Það er háð ákvörðun fagráðs í hverju máli fyrir sig hverjir eru boðaðir í samtöl.
 • Ráðgefandi álit er síðan gefið út og er það álitsgerð um málið og afstaða fagráðs til þess og ráðleggingar hvernig best sé að haga málum og einnig er lagt mat á það sem hefur verið gert í málinu. Álitið er ráðgefandi og er sent málsaðilum (þeim sem vísar málinu til fagráðs, skóla, skólaskrifstofu og mennta- og barnamálaráðuneyti). Gera má ráð fyrir að vinnsla máls taki að öllu jöfnu mánuð. Þegar það á við gefur fagráð ráðleggingar til málsaðila áður en ráðgefandi álit er tilbúið.
 • Eftirfylgd með ráðgefandi áliti er 2 vikum eftir útgáfu þess og þá er oftast óskað eftir aðgerðaáætlun frá skóla í málinu. 2 vikum eftir það, eða innan viðkomandi skólaárs (fer eftir því hvað langt er liðið á skólaárið) sendir fagráð málsaðilum spurningar um málið.
 • Ef við eftirfylgd kemur í ljós að einhverju sé ábótavant er mennta- og barnamálaráðuneyti tilkynnt um það sem þá ákvörðun um næstu skref í málinu.

Ef fagráðið telur að málið heyri ekki undir það er þér leiðbeint um viðeigandi næstu skref í málinu allt eftir eðli máls.

Ef þú þarft aðstoð hafðu samband við starfsmann fagráðs, [email protected] eða í síma 514 7500.