1. Forsíða
  2. Heildarniðurstöður birtar í rafrænum skýrslugrunni

Heildarniðurstöður birtar í rafrænum skýrslugrunni

Heildarniðurstöður samræmdra könnunarprófa í íslensku, ensku og stærðfræði, sem lögð voru fyrir nemendur í 9. bekk í vor liggja nú fyrir. Niðurstöður einstakra nemenda voru kynntar þeim og foreldrum í apríl og nú hafa heildarniðurstöður, tölfræðilegar greiningar o.fl. verið gerðar aðgengilegar í skýrslugrunni Menntamálastofnunar. Birting gagnanna er í samræmi við reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla.

Stutta samantekt á helstu niðurstöðum má sjá hér.

Aukinn sveigjanleiki mælist vel fyrir

Fyrirlögn prófanna var rafræn og gekk vel. Engin miðlæg vandamál komu upp og farsællega tókst að leysa þá fáu hnökra sem upp komu í einstaka skólum; rafmagnsleysi og bilanir í stökum tölvum eða heyrnartólum. Í viðhorfskönnun í kjölfar prófanna töldu skólastjórnendur að fyrirlögnin hefði heppnast vel, auk þess sem aukið sjálfræði skólanna mæltist vel fyrir. Þannig gátu skólastjórnendur ákveðið sjálfir hvenær innan dagsins próftaka færi fram en með því er tekið tillit til aðstæðna á hverjum stað og álag á rafrænt prófakerfi dreifist betur. Þá var við fyrirlögnina unnið eftir viðbragðsáætlun og gátlistum, sem gerðir voru í samstarfi við skólana. Aðgerðastjórn og þjónustuver Menntamálastofnunar var að störfum og veitti aðstoð en almennt var lítið álag til staðar á próftímanum.

Athygli vekur að umsóknum um sérstuðning hefur fjölgað nokkuð síðustu ár og í ár fengu um 35% nemenda aðgang að hljóðskrám og lengdan prófatíma. Mjög fáir nýttu hins vegar lengdan prófatíma á prófdegi og gögn Menntamálastofnunar sýna að nær allir nemendur ljúka prófunum áður en skilgreindur próftökutími rennur út. Þá sýna gögnin að almennt er árangur nemenda bestur þar sem undarþágur eru fáar og mætingarhlutfall í prófið er hátt, öfugt við það sem stundum hefur verið talið.

Góð yfirsýn og uppbyggileg notkun gagna

Samræmdum könnunarprófum er ætlað að mæla hæfni nemenda í ákveðnum námsgreinum og -þáttum, í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla. Þeim er ætlað að vera leiðbeinandi um áherslur í skólastarfi; kennslu, skipulagningu og stefnu í einstökum skólum og sveitarfélögum. Þá veita prófin upplýsingar sem nýtast í stefnuvinnu stjórnvalda á hverjum tíma, m.a. við mat á því hvort markmið um jöfnuð til náms hafi náðst.

Tekið skal fram að samræmd könnunarpróf eru aðeins hluti af því fjölbreytta námsmati sem fram fer í grunnskólum. Skólar gegna veigamiklu hlutverki í námsmati og þeim ber að veita nemendum og foreldrum ítarlegar upplýsingar um gengi í námi, líðan nemenda og velferð. Þá sjá grunnskólar alfarið um námsmat í lok 10. bekkjar en það námsmat er notað við inngöngu í framhaldsskóla.

Menntamálastofnun leggur áherslu á að gögnin séu notuð á umbótamiðaðan hátt og að varfærni sé viðhöfð við túlkun á niðurstöðum. Þannig gerir stærð skóla, þátttökuhlutfall, félagslegur bakgrunnur nemenda, námsforsendur, sértækir námserfiðleikar og fleira, beinan samanburð milli skóla erfiðan og vandmeðfarinn.

Menntamálastofnun þakkar nemendum, foreldrum, kennurum og skólastjórnendum kærlega fyrir samstarfið.

skrifað 14. MAí. 2019.