1. Forsíða
  2. Kennsluleiðbeiningar við Lesrúnu og Litlu-Lesrúnu

Kennsluleiðbeiningar við Lesrúnu og Litlu-Lesrúnu

Við vekjum athygli yngsta stigs kennara á kennsluleiðbeiningum við Litlu-Lesrúnu og Lesrúnu. Efnið er unnið út frá hæfniviðmiðum íslensku á yngsta stigi og í leiðbeiningunum er tafla yfir verkefnagerðir þar sem tilgreint er hvaða hæfniviðmið unnið er með hverju sinni. Mikið er lagt upp úr vinnu með orðaforða áður en nemendur lesa texta bókarinnar, hugað að bakgrunnsþekkingu, ályktun um merkingu óþekktra orða og bent á leiðir til að greina aðalatriði í texta.

Kennsluleiðbeiningarnar skiptast í þrjá kafla

  • Undirbúningur og orðaforði
    Það sem kennari getur gert með nemendum áður en textinn í kennslubók er lesinn. Unnið er með orðaforða textans – flóknari orð útskýrð og bent á leiðir til að vinna með orðin. Orðin sem vakin er athygli á eru flest af þrepi 2, þ.e. orð sem sjást oft í bókum en heyrast sjaldnar í tali, svokallaður námsorðaforði. Einhver orð eru af þrepi 3, þ.e. sértæk orð námsgreina. Fyrir þessa vinnu væri gott að nemendur hefðu litlar orðaforðabækur en bekkurinn gæti einnig safnað orðunum saman á sýnilegan stað í stofunni. Orðin þarf að rifja reglulega upp og nota/skoða í mismunandi samhengi.
  • Kveikjur og ítarefni
    Ótal hugmyndir sem kennari getur notað bæði fyrir og eftir að nemendur lesa textann í kennslubók. Netið er síbreytilegt og því ekki hægt að ganga að því vísu að þær krækjur sem bent er á séu virkar þegar nota á efnið. Kennari verður því alltaf að vera búinn að athuga fyrir kennslustund hvort allt virki. Svo er alltaf hægt að slá inn leitarorðinu sem gefið er upp og fá þá upp nýjar hugmyndir eða krækjur.
  • Útvíkkun á verkefnum: Hægt er að nýta efni textans til að vinna frekari verkefni. Í hugmyndunum er t.d. bent á leiðir til að koma inn ritun, orðaforðavinnu, málfræðiatriðum, föndri, ljóðagerð, söguramma o.fl.
skrifað 05. MAR. 2020.