1. Forsíða
  2. Lesfimi íslenskra skólabarna eykst

Lesfimi íslenskra skólabarna eykst

Lesfimi íslenskra skólabarna jókst marktækt milli ára, samkvæmt lesfimiprófi Menntamálastofnunar sem lagt var fyrir nemendur í öllum bekkjum grunnskóla í september sl. Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að aðgerðir til að auka lestrarfærni og áhuga barna skili árangri.

Samkvæmt niðurstöðum prófanna sem lögð voru fyrir í síðasta mánuði er breytingin mest hjá nemendum í 8. bekk, sem að meðaltali lásu þremur orðum meira á mínútu en haustið 2017. Nemendur í 2., 3., 5., 6., 7. og 10. bekk lásu einu til tveimur orðum meira að meðaltali en fyrir ári en nemendur í 1., 4. og 9. bekk lásu jafnmörg orð að meðaltali og haustið 2017. Í öllum tilvikum var árangurinn því jafn góður eða betri en í sömu bekkjum í fyrra.

Góð niðurstaða úr lesfimiprófum er til marks um markvissa vinnu skóla, kennara, foreldra og ekki síst nemendanna sjálfra. Sú jákvæðni og samhugur sem einkennt hefur lestrarkennslu í skólum landsins er mikilvægt skref á þeirri löngu vegferð, að auka lestraráhuga og læsi til lengri tíma.

Lesfimiprófin mæla lestrarnákvæmni og lestrarhraða barna en hvorki lesskilning, orðaforða né ritun. Menntamálastofnun vill árétta, að við heildarmat á læsi og lestrarfærni barna þarf að horfa til allra framangreindra þátta. Stofnunin vinnur nú að gerð lesskilnings-, orðaforða-, ritunar- og stafsetningarprófa sem kennarar geta nýtt í sínu starfi, kjósi þeir svo.

Niðurstöður lesfimiprófanna eru aðgengilegar fyrir kennara og skólastjórnendur í Skólagátt, rafrænu mælaborði Menntamálastofnunar, þar sem kennari getur fylgst með námsframvindu sinna nemenda á einfaldan og myndrænan hátt.

Skýrsla um niðurstöður lesfimiprófa september 2018

 

skrifað 10. OKT. 2018.