1. Forsíða
  2. Niðurstöður samræmdra könnunarprófa í 4. og 7. bekk liggja fyrir

Niðurstöður samræmdra könnunarprófa í 4. og 7. bekk liggja fyrir

Menntamálastofnun hefur lokið úrvinnslu samræmdra könnunarprófa sem lögð voru fyrir í haust. Heildarniðurstöður og greiningar fyrir skóla, sveitarfélög, landshluta og kjördæmi eru nú aðgengilegar í skýrslugrunni Menntamálastofnunar. Gögnin eru birt í samræmi við reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla. Niðurstöður prófanna hafa verið kynntar fyrir nemendum og foreldrum þeirra.
     
Samtals þreyttu um 8.730 nemendur haustpróf að þessu sinni; 4.549 nemendur í 4. bekk og 4.181 nemandi í 7. bekk. Í viðhorfskönnun sem lögð var fyrir skólastjórnendur í kjölfar prófanna töldu 90% skólastjóra að fyrirlögnin hefði heppnast vel og svipað hlutfall skólastjóra segir að þeir muni nota niðurstöður prófanna beint í þágu skólastarfsins. Menntamálastofnun þakkar skólastjórnendum, kennurum og nemendum kærlega fyrir samstarfið. Hér má sjá stutta samantekt um niðurstöður:
     
Niðurstöður fyrir 4. bekk 

Niðurstöður fyrir 7. bekk 

Menntamálastofnun hvetur til varfærni við túlkun á niðurstöðunum, þar sem ólík stefna skólanna og aðstæður geta haft áhrif á heildarniðurstöður hvers skóla. Þannig gerir stærð skóla, þátttökuhlutfall, félagslegur bakgrunnur nemenda, námsforsendur, sértækir námserfiðleikar o.fl. beinan samanburð milli skóla erfiðan og jafnvel óæskilegan.
     
Menntamálastofnun birtir einnig svokallað sýnispróf, sem sýnir hvaða spurningum nemandi svaraði rétt og hvaða spurningum hann svaraði rangt. Ennfremur er nú í fyrsta skipti hægt að sjá á sýnisprófunum hvaða hæfni liggur að baki hverrar spurningar og hvernig nemandi stóð sig á því sviði. Sýnispróf hvers nemanda í hverri námsgrein fyrir sig má nálgast með því að hafa samband við skóla viðkomandi nemanda.
     
Samræmd könnunarpróf eru einn liður af mörgum sem notaðir eru við námsmat í skólum. Þau eru frábrugðin öðru námsmati að því leyti að allir nemendur á landinu þreyta sama prófið og niðurstöður gefa því annað sjónarhorn á stöðu nemenda. Með niðurstöðunum fá nemendur upplýsingar um sína námsstöðu og skólar upplýsingar til að skipuleggja kennslu. Menntamálastofnun mun nota niðurstöðurnar til að stuðla að umbótum og þróun í skólastarfi.

skrifað 21. NóV. 2018.