1. Forsíða
  2. Nýta niðurstöður til að efla enn frekar læsi nemenda

Nýta niðurstöður til að efla enn frekar læsi nemenda

Lesfimi er færni sem byggir á lestrarnákvæmni, leshraða og hrynrænum þáttum tungumálsins en allir þessir þættir eru meðal undirstöðuþátta fyrir lesskilning. Lesfimipróf, matstæki til að mæla lesfimi, eru lögð fyrir þrisvar á ári og er skólaárið 2018-2019 þriðja árið sem það er gert. 

Prófin eru valkvæð en 76%-96% skráðra nemenda í hverjum árgangi tóku þátt í prófunum nú í maí, fæstir í 10. bekk en flestir í 1. bekk.

Í skýrslu með niðurstöðum lesfimiprófanna 2018-2019 má meðal annars sjá að allir árgangar lesa fleiri orð að meðaltali en lágmarksviðmið tilgreinir (þ.e. viðmið 1) og margir árgangar eru nálægt því að ná viðmiði 2. Þá sést einnig í skýrslunni að yngstu bekkirnir standa sig vel en meiri eftirfylgni þarf með miðstiginu. Viðmiðin voru sett í samstarfi við skólasamfélagið en þau byggjast á þeirri færni sem er nemendum nauðsynleg til að geta lesið sér til ánægju og tileinkað sér efni sem samsvarar þeirra aldri.  

Ef niðurstöður maí 2019 eru bornar saman við niðurstöður maí 2018 má sjá að meðaltal lesinna orða eykst í 4 árgöngum, stendur í stað hjá 4 árgöngum en dalar hjá 2 árgöngum. Mestur er munurinn í 10. bekk en árgangurinn bætir við sig 3 orðum að meðaltali. Í 4. bekk dalar árangurinn að meðaltali um 1 orð en 2 orð í 6. bekk. Í nær öllum árgöngum fer hlutfall þeirra sem ná ekki viðmiði 1 yfir viðmið Menntamálastofnunar. Leggur Menntamálastofnun áherslu á að nemendur sem eru undir viðmiði 1 fái stuðning og viðeigandi íhlutun. 

Þar sem lesfimiprófin hafa nú verið lögð fyrir þrisvar sinnum eru kennarar og skólastjórnendur komnir með ítarlegar upplýsingar um stöðu bekkja og hvers nemanda til að móta áherslur í lestrarkennslu og til að koma til móts við þarfir nemenda. Niðurstöður lesfimiprófa eru einnig gott tæki fyrir skóla og sveitarfélög til að meta árangur stefnu og aðgerða. Það er því mikilvægt að hver og einn skóli tileinki sér að rýna í niðurstöður sínar til að móta aðgerðir sem stuðla að áframhaldandi eflingu læsis meðal nemenda sinna.

Nú hafa skapast forsendur til að leggja heildrænt mat á stöðu og þróun lesfimi íslenskra grunnskólabarna. Slíkar upplýsingar skipta skólakerfið og menntun í landinu miklu máli þar sem góð lesfimi liggur til grundvallar góðu læsi og gott læsi er forsenda árangurs í námi og leik.

Nánar má lesa um niðurstöður lesfimiprófa í skýrslu Menntamálastofnunar.

skrifað 01. JúL. 2019.